133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

rannsókn sakamála.

[15:32]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Það ríkir skoðanafrelsi í landinu og menn geta látið skoðanir sínar í ljósi án þess að ráðherra þurfi að tjá sig um þær í þingsalnum. Varðandi hins vegar álit mitt á dómstólunum flutti ég ræðu á aðalfundi dómarafélagsins á dögunum þar sem ég fjallaði m.a. um það hvort nauðsynlegt væri að koma á laggirnar þriðja dómstiginu eða hvort það hefði verið skynsamlegt á sínum tíma að fella alla dómstóla landsins undir einn hatt í héraðsdómstólum, hvort það hefði kannski verið óskynsamlegt skref að hætta sérhæfingu dómstólanna. Ef til vill ættum við enn að hafa sérstakan sakadóm og hafa sérstakan dóm við meðferð einkamála. Þetta eru þau sjónarmið mín varðandi dómstólana sem ég reifaði á aðalfundi dómarafélagsins.