133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[15:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Landsvirkjun. Frumvarpið er lagt fram í kjölfar undirritunar á samningi um kaup ríkisins á hlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

Meginefni frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar eru lagðar til breytingar á lögum um Landsvirkjun til samræmis við það að ríkissjóður hefur keypt hluti Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu. Hins vegar er lagt til að fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun færist frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra.

Ég vil byrja á því að fara nokkrum orðum um samning íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um kaup á hlutum sveitarfélaganna í Landsvirkjun.

Að frumkvæði Reykjavíkurborgar voru viðræður hafnar í febrúar árið 2005 þegar undirrituð var viljayfirlýsing um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þetta var gert í ljósi þeirra breytinga sem raforkulög fólu í sér en eðlilegt þótti að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, sem eigendur annarra orkufyrirtækja, losuðu um eignarhluta sína í Landsvirkjun. Í yfirlýsingunni var upphaflega gert ráð fyrir því að samningur um þetta skyldi liggja fyrir eigi síðar en 30. september árið 2005 og að þessar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar ættu sér stað 1. janúar 2006.

Samkomulag náðist hins vegar ekki um kaupin og í byrjun árs 2006 urðu aðilar sammála um að ekki væru forsendur fyrir frekari viðræðum að svo stöddu. Um mitt ár 2006 voru viðræður síðan teknar upp að nýju. Í lok október sl. náðist loks samkomulag milli aðila um kaup ríkisins á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Var samningur þessa efnis undirritaður miðvikudaginn 1. nóvember og er hann fylgiskjal með frumvarpinu.

Með samningnum skuldbindur íslenska ríkið sig til að kaupa rúmlega 44,5% eignarhlut Reykjavíkurborgar og tæplega 5,5% eignarhlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Samningurinn öðlast gildi 1. janúar nk. en var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis, borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar.

Kaupverð eignarhlutanna nemur samtals 30,25 milljörðum kr. og skiptist þannig að Reykjavíkurborg fær um 26,9 milljarða kr. en Akureyrarbær fær um 3,3 milljarða kr. Samkvæmt samningnum greiðir ríkissjóður 1. janúar 2007 Reykjavíkurborg 3 milljarða kr. og Akureyrarbæ tæplega 370 millj. kr. Fyrir eftirstöðvum kaupverðs gefur ríkissjóður út skuldabréf til 28 ára og eru bréfin verðtryggð og bera breytilega vexti. Greiðslur af bréfunum fara annars vegar til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og hins vegar til Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar til að mæta lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna sveitarfélaganna.

Í samningnum er kveðið á um að selji ríkissjóður eignarhlut sinn fyrir 1. janúar 2012, hvort heldur að hluta eða öllu leyti, þó að lágmarki 15%, skuli kaupverð á þeim eignarhluta sem seldur er taka leiðréttingum til hækkunar eða lækkunar, að teknu tilliti til nánar tilgreindra forsendna. Ákvæðið á einungis við selji kaupandi eignarhlut sinn beinni sölu til þriðja aðila. Eftir 1. janúar 2012 eiga hvorki kaupandi né seljendur kröfur á hendur hinum um leiðréttingu á kaupverði. Frá sama tíma falla niður ábyrgðir Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar á þeim skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað hafði verið til fyrir 1. janúar 2007.

Meginmarkmið frumvarpsins er að gera breytingar á lögum um Landsvirkjun til samræmis við þá breytingu sem orðið hefur á eignarhaldi í Landsvirkjun með kaupum íslenska ríkisins á hlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu. Þannig er lagt til að allar tilvísanir til sveitarfélaganna tveggja verði felldar brott. Í frumvarpinu er enn fremur lagt upp með að ekki verði gerðar breytingar á rekstrarformi Landsvirkjunar. Því er lagt til að í stað Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar verði sameigandi ríkissjóðs sérstakt einkahlutafélag sem er að fullu í eigu ríkisins. Stofnað hefur verið eignarhaldsfélag, Eignarhlutir ehf., sem unnt er að nota í þessu efni.

Með eign slíks félags að mjög litlum hluta í Landsvirkjun, 0,1%, má vera ljóst að einungis er verið að fullnægja kröfum um tvo sameigendur að lágmarki í sameignarfélagi. Ríkið er eftir sem áður eigandi Landsvirkjunar að fullu, beint og óbeint, og ekki til þess ætlast að eignarhaldsfélagið hafi bein áhrif á starfsemi Landsvirkjunar í krafti eignarhluta síns.

Þá er gert ráð fyrir því að gildandi sameignarfélagssamningur á milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar falli niður en í stað hans komi nýr sameignarfélagssamningur á milli nýrra sameigenda. Fylgir hann frumvarpi þessu sem fylgiskjal II.

Með þessu fyrirkomulagi er uppfyllt skilyrði um lágmarksfjölda eignaraðila að sameignarfyrirtækinu og sameignarfélaginu, og Landsvirkjun þannig við haldið. Því er ekki þörf á því að gera breytingar á rekstrarformi Landsvirkjunar.

Samkvæmt gildandi lögum um Landsvirkjun falla mál er varða framkvæmd laganna og aðild ríkisins að Landsvirkjun undir ráðherra þann er fer með orkumál. Er það frávik frá þeirri skipan sem almennt var komið á meðferð slíkra eigna með 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands en þar segir m.a. að fjármálaráðuneytið fari með mál er varða eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra eigna, m.a. að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins.

Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á skipulagi raforkumála og þess að fyrirtækið starfar nú á samkeppnismarkaði er óheppilegt að handhöfn þess sé hjá sama ráðherra og fer með almenna stjórnsýslu á sviði auðlinda- og orkumála. Með hliðsjón af þessu hefur verið ákveðið að fjármálaráðherra skuli taka við eigandahlutverki ríkisins í Landsvirkjun í stað iðnaðarráðherra svo sem verið hefur.

Í samræmi við framangreinda ákvörðun er í frumvarpinu leitað eftir viðeigandi breytingum á lögum um Landsvirkjun en af þeim leiðir að meðferð eigna ríkisins í fyrirtækinu færist við gildistöku laganna til fjármálaráðherra. Þetta felur m.a. í sér að fjármálaráðherra mun skipa stjórn Landsvirkjunar og samþykkja nýjar skuldbindingar og ábyrgðir vegna fyrirtækisins.

Í frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi er m.a. lagt til að meðferð eignarhalds ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, Rarik og Orkubúi Vestfjarða færist alfarið til fjármálaráðherra.

Auk framangreindra breytinga er í frumvarpinu að finna ýmsar aðrar tillögur um breytingar á lögum um Landsvirkjun. Lagt er til að fækkað verði í stjórn Landsvirkjunar úr sjö mönnum í fimm. Ríkið á í dag þrjá af sjö stjórnarmönnum en við yfirtöku á hlutum sveitarfélaganna hverfa fjórir fulltrúar þeirra úr stjórn fyrirtækisins. Þá er lagt til að einungis þurfi að leita samþykkis fjármálaráðherra við nýjum skuldbindingum eða ábyrgðum sem fara fram úr 5% af höfuðstól á ári hverju.

Að öðru leyti er fyrst og fremst um að ræða niðurfellingu ákvæða sem talin eru óþörf í ljósi breytinga sem orðið hafa á skipulagi raforkumála og starfsskyldum Landsvirkjunar. Má sem dæmi nefna að lagt er til að felld verði niður ákvæði um sérstakan samráðsfund, upptalningu laganna á virkjunum sem Landsvirkjun á og rekur og ákvæði sem heimila sveitarfélögum að gerast eignaraðilar að Landsvirkjun.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps. Ég vil að lokum árétta að ég tel að kaup ríkisins á hlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar hafi verið óhjákvæmilegt skref í að marka skýrari línur varðandi eignarhald opinberra aðila að raforkufyrirtækjum.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.