133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[15:50]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það virðist því miður vera svo að hæstv. iðnaðarráðherra fylgist ekki með þingstörfum né heldur þegar fjölmargir þingmenn leggja fram frumvörp og þingsályktunartillögur sem varða þessi mikilvægu mál. Í iðnaðarnefnd þingsins er til umfjöllunar þingsályktunartillaga sem mér finnst að hæstv. ráðherra hefði átt að kynna sér en á svari hans við fyrirspurn minni er greinilegt að hann hefur ekki gert það. Hún gengur út á það hvað hækkunin hafi orðið mikil á rafmagnsverði til almennings og til iðnfyrirtækja. Upplýsingar um það liggja ekki á lausu og mér finnst það vera stórundarlegt að hér eigi að halda áfram með einhverjar strúktúrbreytingar á raforkumarkaðnum þegar ráðuneytið hefur ekki svarað þessum einföldu spurningum um hver hækkunin hafi orðið. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra skilji þessa spurningu og þetta andsvar mitt.