133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[15:56]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var tvennt sem ég vildi inna hæstv. ráðherra iðnaðarmála eftir. Annað sem lýtur að verðmætinu á fyrirtækinu og það mun ég spyrja um í seinna andsvari mínu en hitt lýtur að eignarhaldi á fyrirtækjum. Það má segja að það hafi skaðað þennan málsferil í fyrra þegar hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra var með mjög óheppilegar og óábyrgar yfirlýsingar um einkavæðingu fyrirtækisins og framtíðareignarhald á Landsvirkjun af því að þetta mál lýtur almennt að auðlindanýtingu okkar Íslendinga og sameignum okkar á helstu og mestu auðlindum okkar. Því vildi ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann fortaki algerlega fyrir að þetta sé fyrsta skref, þeir séu að komast yfir fyrsta þröskuldinn að einkavæðingu Landsvirkjunar. Þessu halda margir fram og það gerði málið tortryggilegt hvernig hæstv. forveri iðnaðarráðherra í starfi gekk fram og kom með mjög óheppilegar yfirlýsingar um það. En spurning mín er: Fortekur hæstv. núverandi iðnaðarráðherra fyrir það að þetta sé vegferð yfir fyrsta þröskuldinn í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar?