133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[15:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek yfirlýsingar hæstv. ráðherra sem fortakslausa yfirlýsingu um að ekki eigi að einkavæða Landsvirkjun hvort sem hægt er að snúa út úr því með því að hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra talaði um það að einkavæða fyrirtækið og koma því í hendur annarra aðila. Þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um verðmætið á fyrirtækinu. Í bókunum minni hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur komu fram mjög öflugar röksemdir í fjórum meginþáttum fyrir því að verðmætið væri allt of lágt og skipti allt að tug milljarða kr., m.a. með spám út af raforkuverði til framtíðar, í öðru lagi út af áhættu í áliðnaði, í þriðja lagi út af óhagstæðu smæðarálagi og í fjórða lagi vegna framtíðarmöguleika Landsvirkjunar á orkunýtingum. Hér er um að ræða mjög alvarlega ásökun, alvarlega röksemdafærslu fyrir því að verðmætið hafi verið allt of lágt, að ríkið hafi verið að hýrudraga Reykjavíkurborg með mjög óeðlilegum hætti. Hvað segir hæstv. iðnaðarráðherra Íslendinga allra við þessu?