133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[16:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um Landsvirkjun. Eins og komið hefur í ljós í ræðum þeirra sem talað hafa á undan mér eru hér ýmsir þættir sem menn vilja gera að umtalsefni og hefur svo sem talsvert af því verið umfjöllunarefni nú þegar á síðum dagblaðanna og í ljósvakamiðlunum.

Ég sé ekki betur, hæstv. forseti, en að hér séu í raun og veru tvö meginmarkmið í gangi hjá ríkisstjórninni. Annað markmiðið með því að leysa til sín eignarhlut borgarinnar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun er óneitanlega það að hleypa Landsvirkjun inn á smásölumarkað í raforku. Hingað til hefur Landsvirkjun verið með heildsöluhlutverk og framleiðslu á raforku en hefur ekki getað staðið í smásölunni. Nú er ríkisstjórnin hins vegar í kjölfarið á hinni svokölluðu markaðsvæðingu raforkumarkaðar að tryggja það að Landsvirkjun hafi hlutverk á smásölumarkaði. Hitt meginatriðið í mínum huga með þessum gjörningi er að laga eiginfjárstöðu Landsvirkjunar um 17 milljarða. Og hvers vegna er eiginfjárstaða Landsvirkjunar slæm? Hún er slæm vegna óráðsíunnar sem farið var út í þegar ákveðið var að reisa Kárahnjúkavirkjun. Eiginfjárstaða Landsvirkjunar er veik, Landsvirkjun hefur étið upp eigið fé sitt í þeim framkvæmdum sem staðið hafa yfir og nú er reynt að bjarga því sem bjargað verður með því að gera Orkubú Vestfjarða og Rarik að dótturfyrirtækjum í Landsvirkjun. Sá gjörningur sem hér er talað fyrir er hluti af þessu ætlunarverki ríkisstjórnarinnar.

Nú er það alveg skýrt hver afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er í þessum efnum. Þann 1. nóvember, þegar tilkynnt var um kaup ríkisins á þeim eignarhlutum sem um ræðir, gaf borgarstjórnarflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs út yfirlýsingu og mig langar til að fá að lesa hana hér, með leyfi forseta:

„Borgarstjórnarflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu á hlut borgarbúa í Landsvirkjun. Með undirskrift borgarstjóra í dag er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun. Sameiginlegt eignarhald ríkis og tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun hefur einmitt tryggt að þessi mikilvæga starfsemi væri í höndum samfélagsins. Nú skal hins vegar haldið inn á braut einkavæðingar, í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna sem er að mola niður samfélagsþjónustuna og koma henni í síauknum mæli í hendur einkaaðilum. Salan á hlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun er liður í þessari yfirlýstu einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, borgarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar gangast nú undir.

Vinstri græn mótmæla einnig dæmafáu offari meirihlutaflokkanna í borgarstjórn sem hafa farið á bak við borgarráð og borgarstjórn í málinu. Í júlí sl. hét borgarstjóri því í borgarráði að gera ráðinu grein fyrir framvindu málsins en hefur síðan ekki vikið að því einu orði fyrr en nú kemur fullbúinn samningur þar sem búið er að afsala Reykvíkingum dýrmætri sameign án þess að um það hafi verið fjallað af kjörnum fulltrúum og sjónarmið reifuð. Hér gerir meiri hlutinn sig sekan um yfirgang og ólýðræðisleg vinnubrögð sem því miður eru ekki einsdæmi á stuttum valdatíma nýrrar borgarstjórnar.

Með þessum gjörningi er vegið að hagsmunum Reykvíkinga, bæði í bráð og lengd og ákvörðun um sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun við þessar aðstæður leiðir til þess að raforkureikningar borgarbúa og landsmanna allra munu hækka stórlega í kjölfarið. Fulltrúar Vinstri grænna leggjast hér eftir sem hingað til gegn þeim einkavæðingarleiðangri sem staðið hefur yfir undir stjórn Sjálfstæðisflokks á annan áratug með stuðningi flokka sem setja hagsmuni valds og áhrifa í öndvegi.“

Þetta var yfirlýsing frá borgarstjórnarflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hún er dagsett 1. nóvember, sama dag og tilkynnt var um þann gjörning, þann samning sem fylgir með þessu frumvarpi sem fylgiskjal.

Nú er alveg ljóst á hvaða forsendum við vinstri græn höfum ævinlega varað við þeirri markaðsvæðingu á raforkusölu sem ríkisstjórnin hefur verið í ákveðinni krossferð fyrir. Það er jú okkar sjónarmið að raforkuframleiðslan og flutningur og dreifing á raforku sé fyrst og síðast samfélagslegt verkefni sem eigi að reka og sýsla með af samfélagslegum stofnunum í eigu okkar allra. Við höfum ástæðu til að ætla, þjóðin öll hefur ástæðu til að ætla, að hér búi meira að baki en það sem hæstv. ráðherra hélt fram áðan, við teljum augljóst að hér eigi að ganga lengra og við höfum því máli okkar til stuðnings m.a. ummæli hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, úr umræðum sem við áttum hér á 131. löggjafarþingi þegar málefni Landsvirkjunar voru til umfjöllunar. Þetta voru umræður sem fóru fram örfáum dögum eftir að borgarstjórn Reykjavíkur hafði lýst yfir vilja til þess að setja af stað, eða samþykkti öllu heldur að undangengnum þrýstingi, umræður um að losa um hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun.

Þær viðræður áttu að hefjast snemma árs 2005 og í kjölfarið komu hér inn á borð þingmanna mál sem hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir talaði fyrir. Í umræðum á Alþingi þann 22. febrúar 2005 þegar hæstv. iðnaðarráðherra hafði verið þráspurð um hugmyndir ríkisstjórnarinnar um mögulega einkavæðingu í framhaldi af breytingum á lögum um Landsvirkjun sagði hún, með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig hefur komið fram sú stefnumörkun að sameinuðu fyrirtæki“ — sem þá var verið að fjalla um í þingsölum, sameinuðu fyrirtæki Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða, sem nú eru orðin eins og við vitum dótturfélög — „verði breytt í hlutafélag, þó eigi fyrr en árið 2008. Með hlutafélagavæðingu eru sköpuð skilyrði fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu,“ sagði hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir 22. febrúar 2005.

Hún heldur áfram:

„Ástæðan fyrir því að rekstrarforminu verður ekki breytt fyrr en eftir 2008 er fyrst og fremst sú að ekki er talið ráðlegt að fara í svo umfangsmiklar breytingar á meðan á byggingu Kárahnjúkavirkjunar stendur.

Rökin fyrir hlutafélagavæðingu hins nýja fyrirtækis eru helst tvenn. Í fyrsta lagi er hlutafélagaformið langalgengasta form atvinnurekstrar hér á landi og það sem er líklegast til að stuðla að aukinni samkeppnishæfni fyrirtækisins. Í öðru lagi skapar hlutafélagaformið möguleika á því að fá inn aukið hlutafé frá fjárfestum og öðrum aðilum.“

Það kemur auðvitað fram, hæstv. forseti, í því frumvarpi sem hæstv. iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson talar hér fyrir að það er markmiðið, að fá inn aðra fjárfesta að þessu borði, og þar með erum við auðvitað að tala um að Landsvirkjun verði innan fárra ára — að öllum líkindum færri en okkur grunar hér — komin á markað og seld í hendur einkaaðila. Þar með eru öll áform og allar hugmyndir framsóknarmanna, ef þær hafa einhvern tíma verið einlægar, fokin út í veður og vind. Þess vegna vara ég þjóðina og kjósendur Framsóknarflokksins við þeim áformum sem hér er talað fyrir. Ég tel að hér sé á ferðinni úlfur í sauðargæru. Máli mínu til stuðnings vil ég m.a. nefna það sem fram kemur í 2. tölulið athugasemda við þetta frumvarp, að það eigi að búa til mikinn málamyndagjörning til þess að hægt sé að fóðra það að lögunum um Landsvirkjun verði ekki breytt strax, henni verði ekki breytt strax í hlutafélag. Þá er búinn til sá málamyndagjörningur að búa til lítið eignarhaldsfélag sem á að heita Eignarhlutir ehf. Það á að vera sameigandi ríkisins í Landsvirkjun með 0,1% í sinn hlut, og með þessu er að sögn hæstv. ráðherra, eins og stendur í athugasemdunum „sameignarfélaginu Landsvirkjun viðhaldið og ekki þarf því að gera umfangsmiklar breytingar á rekstrarformi Landsvirkjunar“.

Hæstv. iðnaðarráðherra til upplýsingar verður nú að segja eins og er að það er hálfhlálegt að hæstv. ráðherra skuli í byrjun athugasemdanna við þetta frumvarp kalla Landsvirkjun sameignarfélag en það er Landsvirkjun ekki. Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki samkvæmt sérlögum og um það gilda ekki lög um sameignarfélög. Það lítur út fyrir að hæstv. ráðherra sé hér að kasta ryki í augu fólks með því að í inngangi athugasemdanna við lagafrumvarpið talar hann um sameignarfélagið Landsvirkjun. Úr því að svo er finnst mér vera hér atriði sem við þurfum að skoða nánar og eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna sé ekki bara farið inn á þá braut að breyta rekstrarforminu strax í opinbert hlutafélag. Við höfum rætt um opinbert hlutafélag hér í öðru samhengi þar sem Ríkisútvarpið er en ég spyr hæstv. forseta — ekki það að ég sé sérstakur talsmaður opinberra hlutafélaga, síður en svo: Hvers vegna er ekki farið út á þá braut að gera Landsvirkjun að opinberu hlutafélagi með þessu? Í öllu falli mundi það opna félagið meira en þær breytingar sem hér eru lagðar til og ég rifja upp að eftir að við breyttum hlutafélagalögunum og settum inn í þau ákvæði um opinber hlutafélög er kveðið á um það í 63. gr. þeirra að í stjórn opinbers hlutafélags skuli það tryggt að í stjórninni sitji „sem næst jafnmargar konur og karlar“. Ljómandi ákvæði sem ekki verður hér inni í þessum breyttu áformum ríkisstjórnarinnar samkvæmt þessu frumvarpi.

Sömuleiðis má nefna það að í opinberum hlutafélögum, samkvæmt hlutafélagalögum, er gert ráð fyrir að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli gefa stjórninni skýrslu um eign sína í félögunum skipti það máli varðandi starf þeirra. Annað atriði sem mætti svo sem vel heimfæra upp á breytta Landsvirkjun. Einnig má nefna ákvæði úr hlutafélagalögunum í 70. gr. þar sem talað er um að starfsreglur stjórna opinberra hlutafélaga skuli birtar á vef félagsins ef slíkur er til staðar. Mér finnst það líka vera eitt af þessum opnu ákvæðum sem eðlilegt væri að giltu um það form sem hér er verið að setja á hvað Landsvirkjun varðar. Einnig má nefna ákvæði úr hlutafélagalögunum í 80. gr. þar sem fjallað er um aðkomu fjölmiðla sem á að vera, samkvæmt henni, heimilt að sækja aðalfund. Einnig er þar tekið fram að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfund með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir.

Loks ber ég niður í 88. gr. hlutafélagalaga en þar er talað um að í samþykktum opinbers hlutafélags skuli kveðið á um að ætíð skuli boða stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins á hluthafafund, svo og fulltrúa fjölmiðla á aðalfund.

Þetta eru allt atriði sem eru þeirrar náttúru að þau eiga að tryggja ákveðið gagnsæi í störfum opinberra hlutafélaga. Ég hefði haldið að það væri einboðið að slíkt gagnsæi ætti að vera til staðar hér með þeirri breytingu sem verið er að gera en ég sé ekki betur en að hér séu sniðgengin þessi ákvæði, það sé verið að fara inn á braut frekari lokunar og að það eigi að vera allt annað upp á teningnum en það að opna og gera hluti gagnsæja.

Eitt af því sem hefur vakið athygli og hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum varðandi þennan gjörning allan er sú staðreynd að í 5. gr. samningsins sem gerður var á milli aðila, ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, kemur fram, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson gat um í ræðu sinni, að í fimm ár sé í gildi ákveðin sérregla sem felur það í sér að ef kaupandi, þ.e. ríkið, losar um eignarhlut eða selur eignarhlut sinn fyrir 1. janúar 2012, hvort heldur er að hluta eða öllu leyti, þó að lágmarki 15%, skuli kaupverðið samkvæmt þeim samningi sem hér um ræðir á þeim eignarhluta sem seldur er taka leiðréttingum til hækkunar eða lækkunar. Svo segir að hagnaður eða tap af sölu þess eignarhlutar skuli miðast við heildarvirði eigin fjár fyrirtækisins skv. 1. mgr. 4. gr. samningsins.

Nú spyr maður að tvennu og það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra svari því í þessari umræðu. Í fyrsta lagi: Hvers vegna þessi dagsetning? Hvers vegna er heimildin bundin við þessa dagsetningu, 1. janúar 2012? Einhver rök hljóta að vera fyrir því, varla getur það verið bara einhvers konar hugdetta sem ræður þessum fimm árum, hvers vegna er ekki lengri tími gefinn til þessarar heimildar? Svo er líka athyglisvert og eðlilegt að spyrja um það: Ef ríkið ákveddi nú að selja 15% við lægra verði — segjum sem svo að ríkisstjórnin sjái ástæðu til að selja einhverjum einkavinum sínum ákveðinn hlut og það verði bara gert við lægra verði — munu Reykjavíkurbúar og Akureyrarbúar þurfa að endurgreiða ríkinu það sem á milli er án þess að hafa nokkru sinni komið að þessari ákvörðun. Þetta yrði ákvörðun ríkisins eins sem eiganda Landsvirkjunar en þetta gildir hvort heldur fengist hærra verð eða lægra. Mér finnst vera afar mikill ágalli í þessari 5. gr. sem ég held að eigendur Landsvirkjunar sem hafa verið fram að þessu að hluta til íbúar í Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ hljóti að þurfa að átta sig á því að hér geti verið maðkur í mysunni.

Svo má líka nefna gagnrýnisatriði sem hafa komið upp vegna þeirrar ákvörðunar að setja þetta allt saman í eitt skuldabréf sem á að vera hugsað til greiðslu á lífeyrisskuldbindingum. Gagnrýnisraddir hafa heyrst um að það geti verið óheppilegt að greiða fyrir þennan hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun með bréfum sem hægt væri að selja á markaði og sömuleiðis hefur verið fjallað um það að form þessa bréfs sé með þeim hætti að ekki sé ljóst hvort það haldi verðgildi sínu til framtíðar miðað við núvirði.

Hér hafa verið nefndir afar alvarlegir ágallar á þessum gjörningi og ég held að hæstv. ráðherra verði að svara fyrir um það, um skuldabréfið eina og núvirði þess, og um málamyndagjörninginn sem búinn er til hér með því að eignarhaldsfélagið Eignarhlutir ehf. er búið til. — Bara svona í neðanmálsgrein er það náttúrlega alveg ótrúlega ófrumlegt nafn á þessu eignarhaldsfélagi, Eignarhlutir ehf., sem er bara búið til svo að hægt sé að kalla Landsvirkjun áfram sameignarfyrirtæki en að öðru leyti algerlega gert til málamynda. Mér finnst það koma fram í orðalaginu á bls. 5 í greinargerðinni þar sem segir að stofnað hafi verið „eignarhaldsfélag, Eignarhlutir ehf., í fullri eigu ríkisins, sem unnt er að nota í þessu efni“. Það er verið að búa til einhvers konar skálkaskjól fyrir ríkisstjórnina til að nota í þessum leiðangri sínum sem er auðvitað, þegar upp verður staðið, að markaðsvæða Landsvirkjun. Það er alveg sama hvernig hæstv. iðnaðarráðherra reynir, eins og hann gerði í andsvörum áðan, að sverja af sér þá undirliggjandi þrá ríkisstjórnarinnar, það er búið að segja of margt í þeim efnum. Það hefur verið kveðið misfast að orði en undirliggjandi er sú þráhyggja þessarar hægrisinnuðu ríkisstjórnar að koma öllum ríkiseigum meira eða minna út á markað sem mögulegt er og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að peningamenn sæju ýmis tækifæri í því að komast í þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, sem er enn öflugra með dótturfyrirtækjunum Orkubúi Vestfjarða og Rarik.

Það gefur augaleið inn á hvaða braut er verið að fara og ég segi fyrir okkur, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs: Við komum til með að berjast á hæl og hnakka gegn þessum áformum eins og við höfum gert hingað til. Okkur er engin launung á því að þegar það varð ljóst að Framsóknarflokkurinn stefndi að þessu leynt og ljóst árið 2005 hægðum við á viðræðuferlinu. Það var fyrir okkar tilstilli að það varð þyngra undir fæti í viðræðuferlinu en ella hefði getað orðið.

Við stöndum vaktina og komum til með að móast við í þessu máli sem endranær.