133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er ekki um að ræða greiðslur til einstaklinga. Hér er um að ræða greiðslur sem borgin hefur skuldbundið sig til að standa skil á. Munurinn á milli þeirra tveggja deilda sem hv. þingmaður vísar til er sá að önnur byggir á eins konar gegnumstreymisfyrirkomulagi en hin byggir á því að vera sjálfbær. Iðgjaldið inn í hana er hærra og hugsunin sú að hún rísi undir sjálfri sér.

Hæstv. forseti. Mér þótti athyglisvert að heyra þingmann Sjálfstæðisflokksins staðfesta það eina ferðina enn í ræðustól Alþingis að ástæðan fyrir því að hann styður hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins sé sú að hún auðveldi sölu þess. Hitt vitum við að sjálfsögðu að meiri hluta þarf á Alþingi til að samþykkja söluna. En þessar yfirlýsingar hv. þingmanns og annarra þingmanna finnst mér mikilvægar. Þarna tala menn heiðarlega og hreint út, sem er meira en sagt verður um ýmsa kollega þeirra á þingi.