133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:24]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er fullkomlega út í hött og byggir á ótrúlegri vanþekkingu sem ég hefði ekki búist við frá tryggingastærðfræðingnum Pétri H. Blöndal, hv. þingmanni.

Um er að ræða samningsbundnar og, hvað ríkið varðar, lögbundnar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna voru fyrr á tíð að verulegum hluta gegnumstreymissjóðir. Þessir sjóðir voru notaðir að stórum hluta vaxtalaust til ýmissa samfélagslegra verkefna. Hv. þingmaður veit að ef við síðan skoðum þetta í samhenginu almannatryggingar og greiðslur úr lífeyrissjóði þá koma allt aðrir hlutir út.

Eða er hv. þingmaður að gefa í skyn að Reykjavíkurborg eða ríkið eigi að svíkja skuldbindingar sínar, ekki framfylgja skuldbindingum sínum og skerða samningsbundnar tekjur úr lífeyrissjóðum? Hv. þingmaður setur dæmið í alrangt samhengi og virðist ekki skilja samhengi hlutanna.