133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:30]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður varpar þeirri spurningu til mín hvort hægt sé að segja það um Framsóknarflokkinn að hann sé heiðarlegur í þessu máli að því er varðar áform um einkavæðingu. Mitt svar er nei. Ástæðan er eftirfarandi: Forusta Framsóknarflokksins heldur því alveg stíft fram að ekki sé fyrirhugað að einkavæða Landsvirkjun. Eigi að síður mælir formaður Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hér fyrir frumvarpi þar sem málum er svo skipað í greinargerð að þar er beinlínis gert ráð fyrir þeim möguleika að eigi að síður kunni fyrirtækið að verða selt. Þar er reifaður sá möguleiki að kaupverði verði breytt ef svo fer að fyrir árið 2012 verði hlutur úr fyrirtækinu, að lágmarki 15%, seldur. Það bendir til þess að forusta Framsóknarflokksins sé sér meðvituð um þennan möguleika.

Ég er hins vegar undrandi á mínum ágæta félaga úr stjórnarandstöðunni, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að hann skuli leita langt yfir skammt, að hann skuli seilast aftur til ársins 2005 til ummæla, að vísu mjög merkra, hjá hæstv. utanríkisráðherra sem þá fór með þessi mál og tína til alls konar rök því til staðfestingar að það sé líklegt að að baki vaki einkavæðingaráform þegar í sjálfu frumvarpinu er að finna handfasta sönnun þess að Framsóknarflokkurinn talar gegn betri vitund. Hann segir að sá möguleiki sé ekki uppi í stöðunni að það eigi að einkavæða fyrirtækið. Það kemur samt fram svart á hvítu í greinargerðinni að forusta Framsóknarflokksins sem hlýtur að hafa lesið sitt eigið frumvarp — þó að það kunni að hafa verið skrifað af einhverjum kansellíherrum í ráðuneytinu — gerir ráð fyrir þeim möguleika að til þess kunni að koma fyrir árið 2012. Þá finnst mér nú skýrum skjöplast þegar hv. þingmaður og formaður BSRB veifar ekki þessu tré eins og öðrum, og öllum réttum þó.