133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér hefur hæstv. iðnaðarráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Landsvirkjun og við höfum rætt þetta frumvarp í dag. Það felur í sér, eins og komið hefur fram, að ríkið vill kaupa hluti Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun og komast þannig yfir fyrirtækið í heild sinni eins og hér hefur rækilega verið rakið. Það er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum, ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, um að geta sameinað hin opinberu orkufyrirtæki sem ríkið hefur eignarhald á, Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða, í eitt fyrirtæki til þess síðan, eins og hér hefur ítarlega verið vakin athygli á, að koma þessum fyrirtækjum sameinuðum á markað. Það þvælist fyrir í markaðsvæðingu ríkisstjórnarinnar ef það eru fleiri en einn eigandi að þessum þjónustustofnunum og þess vegna er þetta liður í því að koma orkufyrirtækjum ríkisins á einkavæðingarvagninn.

Ég hygg að flestum komi á óvart að á síðasta vetri fyrir kosningar skuli Framsóknarflokkurinn láta teygja sig áfram — ef það þarf að teygja hann, ef þetta er ekki sjálfviljugt — í markaðsvæðingu á opinberum fyrirtækjum og þjónustustofnunum og út í sölu á þeim. Ég hélt að flokkurinn ætti nóg með að verja aðgerðir sínar við einkavæðingu og sölu Landssímans. Einkavæðing og sala bankanna fór fram og eftirköstin af því, sérstaklega hvernig það var gert, bæði verðmat, tilhögun og annað, eru ekki enn búin og því fer fjarri að þau mál öll hafi verið skýrð með þeim hætti að allir séu sáttir við. Í rauninni ríkir enn þá fullkomin ósátt um hvernig staðið var að einkavæðingu og sölu bankanna.

Við ræddum fyrr í dag um hlutafélagavæðingu á flugvöllum landsins, flugleiðsöguþjónustunni í landinu. Á örfáum dögum í vor var afgreitt frumvarp til laga um að setja alla flugvelli landsins í hlutafélag sem lýtur bara lögum um samkeppnisrekstur, láta það fá alla flugvelli landsins til umsjár og rekstrar, flugvellina sem eru stór hluti af samgönguneti landsmanna. Hingað til hefur ekki verið ætlunin að flugvellirnir skiluðu í sjálfu sér peningalegum arði til eiganda síns, heldur fyrst og fremst verið til þjónustu fyrir umferð um þá flugvelli alveg eins og vegir og brýr. Þess vegna hélt margur þegar það var keyrt í gegn í vor með stuðningi Framsóknarflokksins að menn mundu láta þar við sitja í bili á þeim bæ.

Fyrir sameinaðan styrk stjórnarandstöðunnar hér á þingi var hlutafélagavæðing RÚV, Ríkisútvarpsins, dregin til baka í vor. Ég hélt satt að segja að Framsóknarflokkurinn teldi nóg að gert í einkavæðingu og markaðsvæðingu.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem hefur reynt að halda á lofti góðum og gömlum gildum flokksins við litla þökk flokksforustunnar, hefur bent á þetta. Hann hefur bent á það hvernig flokksforustan virðist heillum horfin gagnvart sínum gömlu dyggðum, þeim sígilda hugsjónagrundvelli sem Framsóknarflokkurinn eitt sinn byggði á. Hann hefur bent á þetta, rækilega, og nú síðast fyrir fáum dögum. Hann undrast að Framsóknarflokkurinn skuli enn ganga þennan einkavæðingarveg en svo virðist sem það sé það eina sem þessi forusta Framsóknarflokksins sér.

Margur hélt meira að segja að breyting yrði á þegar nýr formaður kæmi í Framsóknarflokkinn. Allir þekkja viðhorf fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, hann lýsti þeim iðulega og var einn helsti talsmaður fyrir einkavæðingu og markaðsvæðingu á opinberri þjónustu. Ég minnist orðaskipta við þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi þingmann, einmitt um Símann þegar hann dásamaði sölu Símans. Ég benti honum á að þetta hefði verið eitt af fósturbörnum íslensks samátaks á sínum tíma, Landssíminn. Meira að segja á þeim dögum, akkúrat þegar verið var að ganga frá sölu Símans, sýndu skoðanakannanir trekk í trekk, aftur og aftur, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur því að Síminn væri seldur með öllu grunnfjarskiptakerfinu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðumst alfarið gegn því, það væri hættulegt fyrir íbúa landsins hvað varðaði bæði jöfnuð í verði og aðgengi í þessari grunnþjónustu. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lítum svo á að hvort sem það er grunnfjarskiptaþjónusta eða raforka sé þetta í eðli sínu grunnalmannaþjónusta og eigi í sjálfu sér ekki að vera rekin á viðskiptalegum grunni í þá veruna að reyna að ná sem mestum peningalegum arði til eigenda sinna — sem á að vera þjóðin — heldur fyrst og fremst fyrir atvinnulífið, heimilin, fólkið í landinu sem á að njóta þessarar þjónustu á jafnréttisgrunni sér til atvinnusköpunar o.s.frv. Þarna bara skilur á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem vill treysta hin góðu gildi sem hafa mótað samfélagsgrunn okkar um áratugi, hvort sem er sameign á Símanum, fjarskiptum, raforkunni, vegunum, þjóðvegunum, eða flugvöllunum. Þetta hefur verið grunnstefna okkar og reyndar samfélags okkar um áratugi sem aðrir flokkar víkja nú frá.

Margur hélt nú að Framsókn sem einu sinni kenndi sig við samvinnuhugsjónina mundi aðeins slá af og hægja á sér í markaðs- og einkavæðingarferlinu. Svo er ekki, við fáum hér inn á borð frumvarp til laga um Landsvirkjun og í framhaldi af því einnig frumvarp til laga um breytingar á eignarhaldi og meðferð eignarhalds á Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Það er viðurkennt að það er bara liður í því að farið verði í einkavæðingu.

Það er reyndar annars merkilegt að hugsa til þess að fyrir nokkrum árum, árið 2003, voru innleidd ný raforkulög. Þá var það gert til að efla samkeppni á raforkumarkaðnum. Það var meira að segja tilgreint að við þyrftum að taka upp einhverja Evróputilskipun í að koma á samkeppni á raforkumarkaðnum og það ætti að vera kominn grunnur til þess.

Hvað þarf til til þess að samkeppni verði? Þá þurfa að vera til fyrirtæki, fleiri en eitt og fleiri en tvö, fleiri en þrjú og fleiri en fjögur, til að halda uppi eðlilegri samkeppni. Á grunni samkeppni er hægt að ætlast til þess að hægt sé að bjóða fram þjónustu á sem hagstæðustu verði og halda uppi þjónustustigi. En hvað er verið að gera hér? Þveröfugt. Hér er verið að gera þveröfugt. Það er fróðlegt. Ég fletti aðeins upp í ræðum þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, eins af forustumönnum Framsóknarflokksins, sérstaklega í markaðs- og einkavæðingarmálum, ræðum þar sem hún lagði mikla áherslu á markaðsvæðingu raforkukerfisins. Að efla og innleiða virka samkeppni, sagði ráðherrann á einum stað, yrði neytendum til sérstakra hagsbóta. Þetta mætti þá skilja svo að það hefði verið alveg ófært eins og það var. Við vorum með Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða, Landsvirkjun, allt sem átti að miða að því að reka þennan geira á félagslegum og sameignarlegum grunni. En nú er verið að steypa öllu saman þannig að þessi kollhnís í einkavæðingarferli ríkisstjórnarinnar, sérstaklega Framsóknarflokksins sem hefur dregið einkavæðingarvagninn, er mjög merkilegur.

Ég vil svo í lokin koma að því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist á. Hvernig varð Landsvirkjun til? Það finnst mér að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að fara rækilega í gegnum í umræðum á Alþingi, frammi fyrir alþjóð. Hvernig varð Landsvirkjun til? Hvernig mynduðust þessir eignarhlutar í Landsvirkjun, annars vegar ríkisins, hins vegar Reykjavíkurborgar og Akureyrar? Á hvaða sanngirnisgrunni eru þessar eignir nú verðmetnar og keyptar af tveim sveitarfélögum í landinu, sveitarfélögum sem hafa í sjálfu sér ekkert lagt til með beinum hætti í eignarhluta þess enda eru þetta bara íbúar landsins? Það er enginn munur á því hvort íbúinn býr í Reykjavík eða annars staðar á landinu. Þetta eru allt íbúar landsins, íbúar Akureyrar, íbúar Reykjavíkurborgar, íbúar landsins alls. Hvort síðan mönnum fannst, eins og hér hefur stundum verið nefnt, tæknilega hagkvæmt að hafa þetta með þeim hætti að eignarhaldinu væri skipt á milli þessara aðila er álitamál.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vitnaði til áðan og las upp kemur fram að það er varla ein einasta króna sem Reykjavíkurborg eða Akureyri hafa lagt fram en þau sveitarfélög eiga núna að fá tugi milljarða. Hvaða réttlæti er þetta gagnvart þjóðinni? Hvers eiga íbúar Hafnarfjarðar að gjalda? Hvers eiga íbúar Mosfellsbæjar að gjalda? Hvers eiga íbúar Akraness að gjalda, íbúar Ísafjarðarbæjar og Sauðárkróks? Svo mætti áfram telja. Með hvaða sanngirni tekur ríkið eignir sem raunverulega eru samfélagslegar, og var af tæknilegum ástæðum skipt með þessum hætti, og borgar tveimur aðilum út? Ætli það séu ekki líka opinberir starfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga á Ísafirði eða í Stykkishólmi eða á Sauðárkróki? Ætli þar séu ekki líka einhverjar lífeyrissjóðsskuldbindingar sem getur þurft að standa við? Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að gera rækilega grein fyrir því á hvaða siðferðislegu forsendum gengið er fram með þeim hætti að greiða tveim sveitarfélögum fyrir hlut í almannaþjónustufyrirtæki en ekki öðrum.

Frú forseti. Þessi sala á Landsvirkjun kom líka með furðulegum hætti inn í fjárlaganefnd á föstudaginn fyrir viku. Þá kemur inn í afgreiðslu fjáraukalaga að setja þurfi 29 eða nærri 30 milljarða kr. inn í fjáraukalög til að greiða hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Skýringar fylgdu engar. Þetta var tekið til umræðu í fjárlaganefnd. Ég bað um skýringar. Hvað liggur á bak við þetta? Hvernig er þetta metið? Á ríkissjóður eða eigum við hér á Alþingi ekkert að fá að vita um það? spurði ég þá. Nei, það þótti ekki ástæða til og málið var afgreitt út úr fjárlaganefnd á 10 mínútum, einir 30 milljarðar vegna Landsvirkjunar án þess að nokkur þar inni virtist vita hvað væri um að ræða annað en það sem hafði heyrst í fréttum.

Þarna var líka sótt um heimild upp á 5 milljarða kr. ríkisábyrgð vegna skulda Landsvirkjunar af umframkostnaði við Kárahnjúkavirkjun. 5 milljarðar, af hverju var þetta svona slétt tala? Ég spurði: Hvað liggur á bak við þessa 5 milljarða? Af hverju voru þetta ekki 5.150.000.672 kr. ef þetta er svona nákvæmt? (Gripið fram í.) Ja, ég spurði: Hvað liggur á bak við? Hvernig geta menn komið inn á Alþingi og sagt: Við viljum fá 5 milljarða í aukaríkisábyrgð til Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar? Svo spyr maður: Hverjar eru heildarábyrgðir Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar? Ég spyr hæstv. ráðherra að því: Hverjar eru heildarábyrgðir Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar? Þarf ríkið kannski að ganga í meiri ábyrgðir? Hvernig á að skipta þessum 5 milljörðum? Það á að veita þá á fjáraukalögum, og fjáraukalög gilda fyrir þetta ár. Sölusamningurinn á ekki að vera fyrr en 1. janúar ef að líkum lætur. Af hverju leggur þá ekki Reykjavíkurborg líka á móti í ábyrgð? Af hverju koma menn með svona tölur og kasta þeim inn að því er virðist af fullri fyrirlitningu við Alþingi eins og þarna var gert? Ég vil fá upp á borðið hér hverjar ábyrgðirnar eru. Er allt komið upp á borðið?

Við köllum sjúkrahússtofnanir fyrir ef okkur finnst eitthvað óljóst. Ef maður kaupir þrem rúmum of mikið og hefur ekki heimildir til þess er hann kallaður inn á teppi fjárlaganefndar og fjármálaráðuneytis. Þegar kemur 5 milljarða beiðni inn vegna umframkostnaðar við Kárahnjúkavirkjun þykir engin ástæða til að spyrja um neitt.

Frú forseti. Þetta er heldur döpur vegferð sem Framsóknarflokkurinn er hér á í einkavæðingarferli sínu á orkugeiranum og nú Landsvirkjun. Hún er slík að sveitarfélögum er meira að segja stórlega mismunað. Landsvirkjun var byggð upp sem sameign þjóðarinnar þó að hin tæknilega útfærsla væri á sínum tíma um eignarhald. Að mati okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er raforkan og raforkukerfið (Forseti hringir.) grunnþjónusta en á ekki að vera í sjálfu sér (Forseti hringir.) arðsemisbúskapur til að greiða peninga til eigenda sinna.