133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:08]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir að hv. þingmaður virtist ekki vera alveg viss um hvort væri betra að leigja þessar eignir, þ.e. orkulindirnar, til fyrirtækjanna á þessu sviði eða selja þær. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur gert um það samkomulag að sett verði ákvæði inn í stjórnarskrána um auðlindir í þjóðareign, þ.e. auðlindir sjávar. Fyrir liggja tillögur frá auðlindanefndinni sálugu frá því árið 2000 og reyndar fleiri hugmyndir og tillögur líka um að til verði auðlindir í þjóðareign og auðlindir í þjóðareign eru líka til í formi þjóðlendna. Og einnig reyndar í formi eigna í auðlindum á hafsbotni og víðar.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að varðveita þurfi inn í framtíðina þessar eignir sem sameign þjóðarinnar, þannig að börnin okkar og barnabörnin eigi líka eitthvað af þessu landi í framtíðinni. Hvort ekki sé þá miklu heppilegra að þau fyrirtæki sem fá orkulindir í hendur til nýtingar og til að hafa með afraksturinn af þeim viðskiptum við þjóðina eða fyrirtæki í framtíðinni, að betri leið sé að menn varðveiti þetta handa komandi kynslóðum frekar en að þetta verði allt saman selt og einkavætt, eins og sumir vilja nú reyndar gera? Hvor leiðin er hv. þingmanni þóknanlegri?