133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:10]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi þetta í ræðu minni til að menn vissu af þessu, menn vissu að þeir væru að selja auðlindina, vissu að þeir kostir væru í stöðunni, annaðhvort að leigja til mjög langs tíma, t.d. til 100 ára, menn byggja nú ekki virkjun fyrir minna, eða þá að þetta sé selt endanlega.

Eitt sinn voru Íslendingar flestir bændur og landeigendur. Síðan fluttu margir á mölina og nú er þannig komið að það eru ekki nema örfáir Íslendingar hlutfallslega sem eru bændur og landeigendur. Afgangurinn af þjóðinni er landlaust fólk. Það hefði einu sinni þótt vera algjörlega fráleitt að meginhluti þjóðarinnar ætti ekkert land. Núna þykir það allt í lagi og enginn sér neitt athugavert við það.

Ég er ekki viss um að eignarréttur þurfi endilega að vera á hendi ríkisins eða hins opinbera. Ég er þeirrar skoðunar reyndar að einkaeignarréttur sé alltaf betri en opinber eignarréttur vegna þess að ábyrgðin á eigninni er næst manninum sjálfum, þeim sem stýrir eigninni, og þar af leiðandi sé umgengnin og arðurinn meiri en ella. Þetta hefur maður séð á fjöldamörgum dæmum. Eitt augljósasta dæmið er náttúrlega salan á bönkunum sem áður skiluðu engum arði, aldrei, og kostuðu meira að segja, það þurfti að veita þeim víkjandi lán á sínum tíma. En eftir að þeir voru seldir og einkavæddir hafa þeir skilað svoleiðis gífurlegum fjármunum, bæði eigendum sínum og ríkissjóði í formi skatta, að það liggur við að eftir nokkur ár sé fyrirséð að þeir muni borga á hverju ári góðan hlut af upprunalegu söluverði sínu.

Ég hugsa að til lengri tíma litið sé betra fyrir þjóðina að eignir séu í einkaeign, enda er það stefna flokks míns að svo sé, að sem flestar eignir séu í einkaeign. Ég er á því. En ég vildi varpa fram þessari spurningu til að menn vissu af því hvað þeir væru í rauninni að kaupa og selja.