133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við frumvarp um kaup Landsvirkjunar á eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun. Um það fjallar þetta mál efnislega. Síðan er viðhaldið sameignarfélaginu með því að til verður nýtt hlutafélag um eignarhlut sem er 0,1%. Þetta er nokkuð sem að hefur verið stefnt markvisst og var í raun kynnt sem áform þegar raforkulögin voru til umræðu hér á sínum tíma árið 2003 og reyndar nokkru áður. Niðurstaðan er sem sagt sú að nú er Landsvirkjun að eignast þessa eignarhluti. Síðan er stefnt til þess að gera Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða að einu fyrirtæki. Um þetta hefur svo sem verið rætt í hv. Alþingi. Það hefur legið fyrir að þetta væri sú vegferð sem ríkisstjórnin hefur viljað fara í þessum málum þegar farið var að tala um að lögfesta hér svokallaða samkeppni á raforkumarkaði sem hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir stóð sérstaklega fyrir í sínum málflutningi að því er varðaði raforkulagafrumvarpið á sínum tíma. Það muna sennilega allir það ferli allt. Það var nokkuð skrautlegt. Í raun voru lögin samþykkt í hv. Alþingi, þó þannig að setja þurfti sérstaka nefnd í raforkulögin til að finna út það fyrirkomulag sem menn vildu hafa á samkeppnisumhverfinu og uppskiptingu dreifiveitna og sölu fyrirtækja og annarra fyrirtækja sem áttu að starfa í sérdeildum, uppskiptum deildum á raforkumarkaði.

Hæstv. forseti. Í frumvarpi til raforkulaga var aðalmarkmiðið, eins og stóð í 1. gr. þess, að stuðla að þjóðhagslegri hagkvæmni raforkukerfisins og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Kannast einhver við svona orðalag, þ.e. að efla atvinnulíf og byggð í landinu? Það er einhver hliðstæða til einhvers staðar nefnilega. Hún er sennilega efnislega í lögunum um stjórn fiskveiða, í einhverjum umdeildustu lögum sem hér hafa verið sett og sem því miður hafa ekki náð þeim markmiðum sem að var stefnt, þ.e. að efla mannlíf og byggð í landinu. Því miður verður það að segjast alveg eins og er að það sem að hefur verið stefnt í raforkumálum almennt hjá þessari ríkisstjórn hefur ekki fært landsmönnum þann ávinning sem að var stefnt.

Við í Frjálslynda flokknum vöruðum mjög við því á sínum tíma að það væri engan veginn tryggt að landsmenn högnuðust á þeim breytingum sem leiddu til samkeppni á raforkumarkaði sem ríkisstjórnin stefndi til og um það hafa auðvitað staðið talsverð átök og sitt sýnst hverjum. En því miður er staðreyndin sú víða á landsbyggðinni að raforkuverð hefur hækkað verulega og það þar af leiðandi vegið að stöðu byggðanna í landinu sem er algjörlega andstætt meginmarkmiði raforkulaganna. Í framhaldinu af þessu verður svo Landsvirkjun, Rarik og Orkubúinu spyrt saman í eitt fyrirtæki.

Sá sem hér stendur sagði af þessu tilefni um raforkulögin — það er rétt að draga það hér fram — þann 14. mars árið 2003 að eigi yrði séð annað en og að ég óttaðist mjög að reyndin yrði sú að hér yrði vegið að landsbyggðinni og vegið að kjörum fólks á landsbyggðinni. Þetta sagði ég í ræðu, hæstv. forseti, um raforkulögin á þeim tíma. Við þessu brást þáverandi iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir með andsvari sem ég ætla að leyfa mér að vitna í niðurlagið á. Það hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„... að það sé minn vilji, sem legg fram þetta frv. og ber ábyrgð á því, að níðast á landsbyggðinni. Það er ekki rétt. Það verður séð til þess, því skal ég lofa, að það gangi ekki eftir sem hv. þm. talaði um í ræðu sinni.“

Þar á hún við að ég hafði sagt að þetta mundi vega að hagsmunum hinna dreifðu byggða og raforkuverð mundi þar verða hærra og kjör fólksins versna.

Þrátt fyrir þessi skörulegu loforð sem ég vitnaði hér í og komu fram í orðum hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra þá höfum við þingmenn landsbyggðarinnar samt sem áður staðið uppi með það að fá iðulega í hendur upplýsingar um að kjör fólks varðandi raforkuna hafa versnað og raforkan hækkað. Þannig er þessi vegferð, hæstv. forseti. Það er ekki hægt að draga fjöður yfir það að því miður hefur þetta farið með þessum hætti.

Ég fæ ekki séð, hæstv. forseti, að samkeppnin sem átti að innleiða og átti að gera það að verkum að fólk gæti valið sér raforkusala meðal annars í þeim tilgangi að leita eftir lægra orkuverði, hafi virkað. Núna sýnist mér að við munum fækka samkeppnisaðilum eins og staðið er að málum, sem er reyndar alveg í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin lýsti yfir á sínum tíma.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði í orð hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur í Kastljóssþætti hjá ríkissjónvarpinu þar sem fyrrverandi iðnaðarráðherra lýsti því yfir skýrt og skorinort að það stæði til að einkavæða Landsvirkjun, selja hana á markaði, sennilega um árið 2008 þó að erfitt væri svo sem að spá um tímasetningar varðandi það. En markmiðið var alveg skýrt. Ef ríkisstjórnin fær að ráða málum til framtíðar, sem vonandi verður ekki eftir næsta vor, verður sem sagt stefnt að því að raforkugeirinn verði að langmestu leyti einkavæddur. Þar held ég að við séum að stíga mjög varhugaverð skref, hæstv. forseti.

Það er eitt sérkennilegt í þessu frumvarpi sem er nú reyndar bara um þessi kaup Landsvirkjunar á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun. Það er ákvæði til bráðabirgða II. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg og Akureyrarbær bera einfalda ábyrgð með ríkissjóði á öllum skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað er til fyrir árslok 2006. Skal sú ábyrgð sveitarfélaganna tveggja á skuldbindingum Landsvirkjunar haldast þar til skuldbindingarnar hafa að fullu verið efndar, en íslenska ríkið mun eftir 1. janúar 2012 tryggja Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ skaðleysi ábyrgðar á þeim skuldbindingum Landsvirkjunar sem á þau kunna að falla eftir þann tíma.“

Við kaup Landsvirkjunar á þessum eignarhlutum skulu sem sagt Reykjavíkurborg og Akureyrarbær enn þá bera skuldbindingar að því er varðar Landsvirkjun, þ.e. skuldbindingar sem stofnað hefur verið til með langtímalánum eða öðrum slíkum skuldbindingum. Þrátt fyrir að ríkið yfirtaki Landsvirkjun á ábyrgðin að sitja eftir hjá þessum tveimur sveitarfélögum, alla vega fram til 2012. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst þetta virkilega undarleg niðurstaða, þ.e. að ef sveitarfélag eða einhver annar selur sína eign þá skuli ábyrgðin sitja eftir hjá seljandanum. Mér finnst þetta vægast sagt einkennileg niðurstaða. Ég hefði talið sjálfsagt þegar ríkið yfirtekur þessa eignarhluti að þá færðist ábyrgðin alfarið yfir á ríkið að því er varðar þessar skuldbindingar.

Hæstv. forseti. Ég vil láta þess getið að í borgarstjórn Reykjavíkur hefur F-listi Frjálslynda flokksins mótmælt því að svona skuli vera staðið að málum og krafist þess að skuldbindingum vegna Landsvirkjunar verði þegar í stað aflétt af Reykjavíkurborg í samræmi við það að það er Reykjavíkurborg sem er að selja fyrirtækið eða sinn hluta í fyrirtækinu. Ég held að það sé réttlætismál, hæstv. forseti, að þannig sé að málum staðið. Ég minnist þess ekki að ég hafi séð marga viðskiptasamninga, ef nokkra, þar sem um slíkar ábyrgðir er samið eins og hér hefur verið gert þannig að ábyrgðirnar sitji eftir á þeim aðila sem selt hefur eign sína. Væntanlega mun Landsvirkjun hirða allan arð af fyrirtækinu frá og með 1. janúar 2007 og hefði þar af leiðandi líka átt að bera allar ábyrgðir samfara því. Þannig tel ég að viðskiptunum hefði átt að vera háttað, hæstv. forseti.

Ég vil í lok ræðu minnar lýsa því yfir að ég tel að ferlið sem farið hefur af stað í raforkumálunum í heild sinni hér á landi frá því að lagt var fram frumvarp um raforkulög á árinu 2002 hafi í raun engan veginn þjónað þeim markmiðum raforkulaga sem að var stefnt, þ.e. að lækka orkukostnað almennings og efla atvinnulíf og byggð í landinu. Ég held að það sé alveg á hinn veginn því miður og tel að fyrirtæki, einstaklingar og íbúðareigendur á landsbyggðinni hafi einmitt borið skarðan hlut frá borði við setningu þessara laga. Við stjórnarandstöðuflokkarnir höfum beðið um sérstaka skýrslu um þróun raforkuverðs eftir landsvæðum og eftir kaupendum, þ.e. hvort um sé að ræða heimili, sveitabýli, minni fyrirtæki eða stærri rekstraraðila, til að leiða í ljós hvernig málin hafa þróast frá setningu raforkulaganna því nauðsynlegt er fá það fram ekki síst í ljósi þess að Valgerður Sverrisdóttir lofaði, eins og ég vitnaði til áðan þegar ég lýsti áhyggjum mínum af því að þetta mundi bitna á landsbyggðinni, að þær áhyggjur sem ég hafði vikið að í ræðu minni gengju aldrei eftir, hæstv. forseti, og færi nú betur að menn standi við orð sín.