133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:33]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um Landsvirkjun, þ.e. um breytingu á skipulagi Landsvirkjunar. Markmið frumvarpsins er að búa til umgjörð um fyrirhugaða sölu á hlut Reykjavíkur og Akureyrar til ríkisins. Að einhverju leyti mun eignarhaldið á Landsvirkjun einfaldað og því komið á eina hönd, til ríkisins. Við vitum náttúrlega hvað býr að baki. Það hefur m.a. komið fram í máli fyrrum iðnaðarráðherra að markmiðið sé að einkavæða viðkomandi fyrirtæki.

Í andsvari beindi ég fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um hvort þetta væri það verkefni sem væri hvað brýnast að leggja í, að einfalda eignarhaldið. Að einhverju leyti virðist sú fyrirspurn mín ekki hafa skilist. Ég veit nú ekki hvers vegna en ef til vill er maður ekki á nægilega háu þekkingarstigi til að hæstv. ráðherra nái svo einfaldri fyrirspurn. En ég ætla að endurtaka hana og vonast til að hæstv. ráðherra sjái sér fært að svara.

Fyrirspurnin var um hvort ekki væri rétt, áður en farið er í að breyta eignarhaldi og skipulagi hvað varðar raforkumarkaðinn og Landsvirkjun, að fá á hreint hvað rafmagnsverð hefur hækkað til neytenda og til fólks á landsbyggðinni. Það hefur verið nefnt í umræðunni að orðið hafi gífurlegar hækkanir. Í skýrslu sem fyrrum iðnaðarráðherra dreifði kom ekkert fram hver hækkunin hefði orðið. Mér finnst furðulegt að ráðuneytið og hæstv. iðnaðarráðherra ætli að ráðast í enn frekari skipulagsbreytingar án þess að gera fólki grein fyrir afleiðingum fyrri breytinga. Það er í raun óþolandi að ekki skuli gert hreint í þessu máli.

Það væri hægt að hafa mörg orð um frumvarpið sjálft en það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í er m.a. 7. gr. Þar kemur fram að lagðar eru sérstakar hæfiskröfur á stjórnarmenn í fyrirtækinu. Það væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort það sé í framhaldi af því að menn hafa gengið beint inn í stjórnir raforkufyrirtækja. Í því sambandi vil ég nefna mann sem gerði ákveðin tæknileg mistök og þurfti að gjalda fyrir það en var um leið og hann hafði tekið út dóm settur inn í stjórn Rariks. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort þetta sé einhver leið til þess að koma í veg fyrir að menn sem hafa gert tæknileg mistök fari í stjórn Landsvirkjunar. En þetta varðar kannski ekki beint efni frumvarpsins.

Mér finnst að þegar við erum að ræða raforkumál og samkeppnismál þá eigi ekki að vera hægt að hlaupa yfir það, þótt eignarhaldið á Landsvirkjun verði einfaldað, að við sitjum enn uppi með einokunarþáttinn, þ.e. Landsnetið. Við síðustu breytingar átti að verða samkeppni á framleiðslunni en hins vegar átti að vera einokunarfyrirtæki sem sæi um flutninginn og einokunarfyrirtæki hvað varðar dreifinguna. Af þessum þremur þáttum átti að vera samkeppni á sviði orkuframleiðslunnar. Það er svo furðulegt að þegar menn gera breytingar á þessu sviði, sem eiga að tryggja samkeppni, þá fer Reykjavíkurborg sem á orkuframleiðslufyrirtæki út úr Landsvirkjun, sem er í samkeppni. En þá taka menn ekki á meginvandanum sem hlýtur að vera sá að orkuframleiðslufyrirtækin, Landsvirkjun þar fremst, eiga einokunarþáttinn, þ.e. sjá um flutninginn. Mér finnst svolítið furðulegt að Landsnet, sem er í eigu Landsvirkjunar, skuli skilið eftir. Ætti það að vera svo ef menn ætluðu sér í raun og veru að tryggja samkeppni? Ég get ekki séð að menn hafi áhyggjur af því.

Það kom fram hugmynd hjá hv. þm. Pétri Blöndal um að skipta þyrfti Landsvirkjun upp í þrjú fyrirtæki til að tryggja samkeppni. Það mætti eflaust taka undir þessar hugmyndir ef það væri í raun ætlunin. En þetta sýnir kannski að málið snýst ekki um samkeppni, enda hafa framsóknarmenn voðalega lítinn áhuga á samkeppni. Við getum bara nefnt Samkeppnisstofnun, að þegar hún tók á málum var hún lögð niður og búið til nýtt fyrirtæki, Samkeppniseftirlitið, þ.e. ríkisstofnun. Þegar spurt var út í hvort það hefði orðið hraðari gangur á afgreiðslu mála við það þá kom í ljós að það var alls ekki svo heldur hefur málum fjölgað sem bíða afgreiðslu hjá Samkeppniseftirlitinu eftir að það tók til starfa.

Það er af og frá að þetta mál snúi að því að tryggja hag neytenda eða samkeppni eins og látið er að liggja. Nei, að baki býr einungis að koma fyrirtækinu í söluhæfan búning og selja það. Ég er sannfærður um að öllum þeim sem nota rafmagn, fyrirtækjum og einstaklingum, er mest umhugað um verðið á rafmagninu. Það skiptir minna máli hver selur þeim raforkuna. Þær breytingar sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn hafa staðið að á umliðnum árum hafa einungis hækkað raforkureikninginn. Ekki nóg með það heldur er svo komið að fólk skilur ekki rafmagnsreikningana sína. Þetta eru miklir reikningar, jafnvel á mörgum blöðum og það er ekki nokkur leið fyrir fólk að skilja hvernig menn komast að niðurstöðunni á reikningum, sem er hærra verð víðast hvar.

Ég vona að hæstv. ráðherra skilji spurningu mína sem var: Hvers vegna er ekki forgangsverkefni að tryggja að neytendur skilji reikningana sína og hve mikil hækkunin á raforkunni er í stað þess að leggja í þessa vegferð? Maður er furðu lostinn að verða vitni að því. En eflaust ætla menn að reyna að komast hjá því að svara spurningum um hve mikið þetta hefur hækkað rafmagnsreikninginn hjá fólki. Það er óumdeilt að víða er hægt að sjá tugprósenta hækkun. Bakarar landsins hafa talað um 50% hækkun. Hvers vegna ekki að líta á vandamálið, t.d. bakara sem hafa orðið varir við 50% hækkun? Í stað þess að spyrja hvernig stendur á þessu þá leggja menn fram frumvörp um einhver skipulagsmál, og alls ekki skipulagsmál sem snúa að því að tryggja samkeppni. Enda er Framsóknarflokkurinn langt frá því að hafa það í forgangi eins og sagan sýnir.

Framsóknarflokkurinn hefur haft annað í forgangi, þ.e. einkavæðingu. Það má ekki gleyma því að S-hópurinn, (Gripið fram í.) sem er nátengdur innsta hring Framsóknarflokksins, fékk góða bita í einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Mig rekur minni til þess að einn leiðtogi þess hóps hafi lýst yfir áhuga á að komast í orkugeirann. Það er kannski það sem rekur á eftir framsóknarmönnum í þessu máli, að koma þessu fyrirtæki í réttar hendur. Ég er sannfærður um það að margir furða sig á því að Búnaðarbankinn skyldi lenda hjá fyrrum varaformanni Framsóknarflokksins, í innsta kjarna Framsóknarflokksins en það eigi ekki að fara fram nein rannsókn á því.

Maður spyr sig: Hver er hugsunin með þessu frumvarpi? Eitt er víst, að ekkert sýnir fram á að tryggja eigi hag neytenda með þessu frumvarpi. Hvað þá að tryggja samkeppni. Framsóknarflokkurinn er í raun rúinn trausti þegar kemur að því að leggja fram með frumvörp sem geta haft í för með sér einkavæðingu.

Í rauninni finnst mér að Sjálfstæðisflokkurinn ætti líka að hugsa sinn gang þegar skipulagsbreytingar og möguleg einkavæðing á raforkumarkaði verða með þessum ólíkindahætti, að opinber fyrirtæki eiga að fara í samkeppni. Síðan eykst til muna opinber eftirlitskostnaður með þeirri samkeppni opinberra fyrirtækja og rafmagnsreikningurinn hækkar. Fólk fær ekkert að vita hve mikið rafmagnið hækkaði í raun. Það fær ekki svör við því heldur fara menn eins og kettir í kringum heitan graut, líkt og í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun. Þeir segja að málið sé í athugun. Þetta ætti ekki að vefjast fyrir mönnum en það vefst fyrir þeim vegna þess að þeir vita að niðurstaðan er flokknum í óhag.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Mér finnst þetta óneitanlega sérkennileg forgangsröðun hjá stjórnarflokkunum, að vilja í raun ekki grennslast fyrir um hversu mikið rafmagnsverð hefur hækkað. Þess í stað skal farið í skipulagsbreytingar sem virðast miða að einkavinavæðingu.