133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[18:47]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að bæta fáeinum orðum við það sem ég sagði fyrr í dag um þetta mál. Það er aðallega vegna þess að ég flutti ekki þá ræðu sem ég hef stundum áður flutt hér um önnur sveitarfélög en þau sem áttu hlut í Landsvirkjun. Aðrir hafa svo sem talað um það mál hérna núna, það sem ég vil kalla mistök ríkisvaldsins, þ.e. að láta tvö sveitarfélög í landinu njóta þess að hagnast gríðarlega á því að nýta auðlindir eins og þetta ber vitni um. Menn þurfa ekki annað en að horfa á tölurnar sem liggja fyrir. Þær hljóta að kalla á svör við þeim spurningum hvort önnur sveitarfélög þurfi þá ekki með einhverjum hætti að fá að njóta sambærilegra hluta og þarna hafa gerst. Ég held að það beri prýðilega í veiði, af því að hæstv. ráðherra iðnaðarmála er líka ráðherra byggðamálanna, að fá fram skoðanir hans á þessu atriði. Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstaður fá þarna gríðarlega mikla fjármuni en vel er hægt að halda því fram að þau sveitarfélög hafi ekki lagt fram mjög stórar fjárhæðir til að skapa verðmætin. Ég er ekki að gera lítið úr þeirra hlut í þessu máli öllu en ég segi bara að þarna voru gerð ákveðin mistök og spurningin er hvort ekki sé eðlilegt að þau verði leiðrétt með einhverjum hætti.

Ég hef haldið því fram hér áður og held því fram aftur hér og nú að eignarhlutir ríkisins í öðrum fyrirtækjum eins og Rarik eða Orkubúi Vestfjarða gætu vel verið notaðir sem hluti í því að leiðrétta þann halla sem þarna myndast í eignum og stöðu sveitarfélaganna. Mér finnst að þau sveitarfélög sem í raun og veru hafa skapað þann auð sem liggur t.d. hjá Rarik væru vel að því komin að eignast hlut í því fyrirtæki. Það er ekkert sjálfsagt að ríkissjóður hirði það fyrirtæki allt saman í sína vörslu sem eign eins og hér er stofnað til. Mér finnst að eignarhlutur sveitarfélaganna í landinu í raforkufyrirtækjunum, annaðhvort dreifingarfyrirtækjunum eða hinum fyrirtækjunum, komi prýðilega til greina, og komi ekki bara til greina heldur hljóti að verða skoðað sem hluti af því máli sem hér er verið að vinna að. Það hlýtur að verða hluti af þeirri yfirferð sem nú er farin í framhaldi af þessum samningi hvort ganga eigi til móts við önnur sveitarfélög í landinu til að rétta þarna dálítið af. Það er mín skoðun og ég hef sett hana fram hér áður, oftar en einu sinni, og ég endurtek að það er full ástæða til að gefa þessu gaum. Mér finnst ekki vansalaust að forsvarsmenn sveitarfélaga í landinu skuli ekki hafa haldið þessu máli til haga með skýrari hætti en raun ber vitni.

Það er annar hlutur sem mig langaði til að bæta hér við. Ég mun auðvitað tala fyrir því í iðnaðarnefnd að kallaðir verði til aðilar frá sveitarfélögunum í landinu til að ræða þessi mál ásamt öðrum sem tengjast því stóra máli sem við erum hér að fjalla um. Þá kemur auðvitað fram hvaða vilja forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa og hvaða skoðanir þeir hafa þá á því hvort einhverja hluti þurfi að gera til að rétta af stöðu sveitarfélaganna í tilefni af því sem hér er um að ræða. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra til viðbótar við það sem ég talaði um hér í dag um þetta ábyrgðargjald. Mér finnst svolítið furðulegt að fyrrverandi eigendum Landsvirkjunar, til helmingshlutar í Landsvirkjun, skuli vera haldið inni í málinu með þeim hætti sem gert er. Þar er gert ráð fyrir því að eftir 2012 liggi fyrir yfirlýsing ríkisvaldsins um að þar verði tekin full ábyrgð á öllum ábyrgðum sem nú eru sameiginlegar með Landsvirkjun vegna skulda Landsvirkjunar. Ríkissjóður tekur sem sagt fulla ábyrgð. Var ekki mögulegt að ríkissjóður tæki bara strax fulla ábyrgð á þessum skuldbindingum? Hvað var að því að gefa slíka yfirlýsingu, hvað var í veginum með að það væri gert? Hvers vegna fara menn þessa leið og þurfa þar af leiðandi að borga Akureyrarkaupstað og Reykjavíkurborg verulega fjármuni vegna ábyrgða fram til ársins 2012? Mig langar a.m.k. til að fá að vita hvernig stóð á því að ekki var hægt að klára þennan hluta málsins núna og spyr þess vegna um það.

Svo langar mig bara fyrir forvitni sakir að spyrja hvers vegna 7. gr. í þessu máli er breytt með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmenn, aðal- og varamenn, skulu vera lögráða, bú þeirra skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta, þeir skulu hafa óflekkað mannorð og skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Landsvirkjunar.“

Þegar maður les lögin sem gilda núna um Landsvirkjun er þetta hvergi inni. Er einhver sérstök ástæða fyrir því að menn vilja núna setja það inn í þessa lagagrein að menn sem taka sæti í stjórn skuli hafa óflekkað mannorð? Ég spyr bara af því að ég rakst á þetta þegar ég var að bera saman textana.

Síðan langaði mig í framhaldi af þeim orðaskiptum sem ég átti við hv. þm. Pétur Blöndal að bæta örlitlu við það sem ég sagði þá. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að einkaaðilar færu betur með auðlindir en hið opinbera. Ég er hreint ekki sammála þessu, þess eru auðvitað dæmi að stjórnvöld hafi ekki staðið sig, en það eru líka til ótal dæmi um að einkaaðilar hafi ekki staðið sig. Einkaaðilar eru oft mjög skammsýnir í mati sínu á því hver hagnaður þeirra er. Ákvarðanir einkaaðilanna geta ráðist af mjög miklum skammtímasjónarmiðum þegar um er að ræða t.d. auðlindir sem eru ekki endurnýjanlegar og reyndar aðrar auðlindir líka, einfaldlega vegna þess að viðkomandi aðilar gera ekki ráð fyrir því að eiga viðkomandi auðlindir mjög lengi heldur að þeir muni losa sig við þær áður en skerðing á endurnýjanleikanum hefur komið fram í verði á viðkomandi auðlind.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að þeirrar umræðu sé virkilega þörf hvort í okkar agnarsmáa landi, Íslandi, geti menn tekið þá áhættu að láta einkaaðila eignast allar auðlindir. Það fyndist mér fráleitt. Ég má ekki til þess hugsa að ýmsar auðlindir þjóðarinnar geti þannig komist í eigu einkaaðila að þeir geti bókstaflega haft í hendi sinni hreinlega möguleika þjóðarinnar til framtíðar, að þeir geti átt fiskimiðin við landið eins og gæti stefnt í miðað við þetta einkaeignarhald sem menn halda þar uppi, að þeir gætu átt það sem er í hafsbotninum og undir honum, og orkulindirnar í landinu. Það er eitthvað sem ég get ekki sætt mig við að hugsa til.