133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[19:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ósköp var þetta eitthvað rýr ræða. Ég var að vonast til að við heyrðum framtíðarsýn Framsóknarflokksins á skipulag raforkugeirans á Íslandi. Nei, það fór óskaplega lítið fyrir slíkum lýsingum eða umræðu um sjálft málefnið heldur var vísað í samkomulag sem gert hafi verið milli Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og ríkisins og að þetta mál snúist einfaldlega um það. Þetta mál snýst um það hvert við ætlum að fara með raforkugeirann á Íslandi.

Hv. þingmaður gaf til kynna að ég hefði sagt eða gefið í skyn að ég teldi að núverandi hæstv. iðnaðarráðherra væri ómerkingur og hvers vegna ég segði það þá ekki. Ég gaf ekkert slíkt til kynna, enda fjarri því að mér finnist það. Ég færði hins vegar rök fyrir því að með þessu móti væri verið að auðvelda sölu á Landsvirkjun. Og hvers vegna vísaði ég í fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra? Vegna þess að hún gaf yfirlýsingar í þá veru. Hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, gaf yfirlýsingar í þessa veru. Ég las þær yfirlýsingar upp áðan. Eru það dylgjur? Nei, það er raunveruleiki.

Loks um ásakanir sem ég hafi borið fram á hendur einstaklingum og hópum. Við getum kallað það ásakanir, við getum líka kallað það söguskýringar, en þetta eru staðreyndir. Ég vísa í staðreyndir, ég nefni nöfn, ég tala um upphæðir, ég vísa á heimildir mínar. Eru það dylgjur? Nei, þetta er tilraun til þess að að efna til málefnalegrar umræðu um þann raunveruleika sem við hrærumst í og eigum að ræða. Ég læt Framsóknarflokkinn aldrei skipa mér að (Forseti hringir.) hætta umræðu um þessi mál.