133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[20:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram og hefur tekið býsna langan tíma er að sumu leyti byggð á misskilningi og að sumu leyti sjálfsagt að einhverju leyti á útúrsnúningum. Hér hefur mest verið rætt um sölu á eignarhlutum ríkisins, hugsanlega sölu, fyrirætlanir um sölu einhvern tíma í framtíðinni, en málið sem við erum að ræða fjallar um kaup á eignarhlutum. Frumvarpið sem er til umræðu er ekki um sölu á eignarhlutum ríkisins heldur um kaup ríkisins á eignarhlutum tveggja sveitarfélaga.

Tilvitnanir í ummæli fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra eru sama marki brenndar. Þær hafa verið teknar úr eðlilegu samhengi og rangtúlkaðar. Hún var að tala um framtíðarþróun orkumarkaðarins, hugsanlega sölu, hugsanlegt söluferli. Við erum núna að tala um frumvarp sem fjallar um kaup á eignarhlutum.

Hér eru ýmis atriði sem hefur verið getið um og ég tel mér skylt að víkja stuttlega að eftir því sem tími leyfir. Það var spurt um frekari eigendabreytingar í því sameignarfyrirtæki sem áfram verður um Landsvirkjun og það er rétt að taka fram að það fer þá fram eftir almennum reglum eins og lýst er og þá þarf auðvitað aðild Alþingis þar sem um einkenni sameignarfélags eða sameignarfyrirtækis í ríkiseigu er að ræða.

Hér var líka vikið að eiginfjárstöðu Landsvirkjunar og það er hægt að upplýsa það, eins og menn vita, að hún er traust. Margir ræðumenn hafa vikið að dagsetningunni 1. janúar 2012. Um það er einfaldlega það að segja að hér er um niðurstöðu í viðskiptalegum samningum að ræða og er alþekkt í viðskiptalífinu og í slíkum samningum. Það var nokkur misskilningur hjá ræðumönnum um eigandaumboð fjármálaráðherra og það er ástæða til að nefna það að málefnisstjórnsýsluumboð iðnaðarráðherra um iðnaðar- og orkumál breytist ekki þrátt fyrir þetta.

Hér hafa ýmis orð fallið um réttarform og rekstrarform fyrirtækja og ég hlýt að lýsa áhyggjum mínum yfir þeim einkennilegu viðhorfum sem hér hafa komið fram um hlutafélög og einkahlutafélög. Því er til að svara að sameignarfélög, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og fleiri rekstrarform sem nefna mætti eru auðvitað skilvirk sjálfsábyrg réttarform fyrirtækja sem getur verið mjög vel við hæfi að velja í hvers konar rekstri. Það er enginn árekstur þar við samfélagslegt hlutverk eða samfélagsþjónustu sem liggur í sjálfu réttarforminu. Það er vel hægt að iðka og þjóna samfélagi og samfélagslegum hlutverkum í öllum þessum réttarformum og rekstrarformum en það er eðlilegast að velja þar úr eftir því sem hæfir hverju sinni. Á sama hátt hlýt ég að lýsa áhyggjum af þeim úreltu viðhorfum sem hér hafa komið fram til markaðarins. Það er alveg það sama með markaðinn. Hann er auðvitað það fólk sem þar starfar og þar á viðskipti. Hann getur vel þjónað almennum neytendum, ekkert síður og jafnvel í flestum atvikum miklu betur en þar sem er ríkisforsjá.

Það var talað um eignarhald á Landsneti. Það hefur áður komið fram að það kemur vel til greina að önnur fyrirtæki og stofnanir á þessum markaði verði þar aðilar að en það er ekki á dagskrá nú.

Hér var oftar en einu sinni vikið að rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það er rétt að ítreka að það eru samhengislítil orð og algerlega ótengd þeirri umræðu sem hér fer fram. Það er meira að segja tekið skýrt fram í því lagafrumvarpi um Ríkisútvarpið sem nú er til vinnslu á Alþingi að ekki kemur til greina að það verði selt eða sundur bútað.

Ég hlýt tímans vegna að vísa til þess sem ég sagði áður í svari við fyrirspurn um þróun á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar frá árum Marshall-aðstoðarinnar og ég hlýt líka að vísa til þess svars sem ég veitti um raforkuverð, að upplýsingar sem ég hef fengið benda til þess að fleiri kaupendur raforkuverðs hafi fengið lítt breytt eða lækkað verð heldur en þeir sem takast á við hækkað verð.

Það er alveg ljóst að við þurfum að starfa, eins og hér hefur líka komið fram, í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins og vinna hér að frekari mótun og þroska orkumarkaðar. Þá hljótum við auðvitað að taka síðari ákvarðanir um rekstrarform, réttarform, skipulag, samkeppnisaðstæður og fleira, annars vegar á viðskiptalegum grundvelli og forsendum og hins vegar í samræmi við þau samfélagslegu hlutverk sem þessum markaði er ætlað að rækja.

Um ákvæðið í 7. gr. hlýt ég að segja að þar sé einfaldlega um almenn viðhorf að ræða um hæfisskilyrði.

Um fyrirtækið Eignarhlutir ehf. sem hér var nefnt vil ég segja að þetta er einfaldlega alsiða til að tryggja að um óbreytt réttarform og rekstrarform sé að ræða og alþekkt í viðskiptalífinu að nota þá lítil fyrirtæki með sem eignaraðila eða aðila að viðskiptum eða rekstri.

Ég hlýt að harma það sem hér var sagt áðan um einkavæðingu bankanna. Ég hef kynnt mér skýrslur sem Ríkisendurskoðun hefur skrifað um það mál og þar koma ekki fram þær ástæður sem hér voru nefndar. Ég hlýt líka að harma það sérstaklega að hér voru nafngreindir menn, einstaklingar úti í þjóðfélaginu og fyrirtæki, að tilefnislausu.

Að miklu leyti hefur umræðan farið langt út fyrir efnið eins og komið hefur fram. Það sem við erum hér að ræða er aðeins afmarkaður skilgreindur áfangi innan orkumarkaðarins samkvæmt þeim skilmálum sem Evrópska efnahagssvæðið og annað markar okkur. Hér er um að ræða augljós skipulagsmál. Efni frumvarpsins og tillögur eru algerlega hlutlausar varðandi frekari þróun markaðarins, viðskiptalegar forsendur, viðskipti við aðra aðila, lánardrottna og aðra slíka og það tengist alls ekki á nokkurn hátt einkavæðingu, hvorki fyrr né síðar. Þetta er alveg opið og gegnsætt ferli

Að lokum hlýt ég að hafna og vísa á bug þeim fráleitu ummælum sem hér hafa fallið um þá alhliða framfarastefnu og framfarasókn sem hér hefur ráðið að undirlagi framsóknarmanna í ríkisstjórninni sem skilað hefur sér hvarvetna í vaxandi framlögum til velferðarmála, í atvinnuástandi sem á sér varla sinn líka í sögunni og mjög glæsilegri þróun í kaupmætti almennings.