133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[20:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp fjallar ekki um sölu, heldur um kaup. Það er alveg rétt. Einn aðili selur og annar kaupir. Reykjavíkurborg selur, ríkið kaupir. Efasemdir um söluna voru m.a. byggðar á því hjá Reykvíkingum mörgum að þeir vissu ekki hvað vekti fyrir stjórnvöldum, hvaða áform væru uppi um Landsvirkjun og raforkugeirann í framtíðinni. Í því sambandi hlustuðu menn á hvað fulltrúar ríkisstjórnarinnar, þar á meðal og ekki síst fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, segðu um það efni. Þess vegna vísa menn í ummæli hennar og ég spyr hæstv. ráðherra þegar hann segir að þau hafi verið tekin úr samhengi á hvern hátt það hafi verið gert. Hér er væntanlega vísað til þess sem ég sagði um það efni.

Hæstv. ráðherra segir að það sem við höfum haft til málanna að leggja sé annaðhvort misskilningur eða útúrsnúningar. Við höfum óskað eftir því að fá að vita hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hafa um framtíðarskipan þessara mála. Þegar hæstv. ráðherra vísar í úrelt viðhorf til markaðarins er hann væntanlega að vísa í ummæli okkar, og þar á meðal mín sem hef fært rök fyrir því að markaðsvæðing raforkugeirans hafi leitt til fákeppni og hærra raforkuverðs víðast hvar þar sem sú leið hefur verið farin. Þetta er málefnaleg umræða og aldeilis ekki úrelt en það er óskað eftir því að fá málefnaleg viðbrögð en ekki að viðmælendur hæstv. ráðherra séu afgreiddir á þann hátt að þeir annaðhvort misskilji hlutina eða snúi út úr.