133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[20:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum á orkusviði sem er eins konar fylgifrumvarp með breytingum á lögum um Landsvirkjun sem við höfum rætt hér er í sjálfu sér, má segja, framhald af stefnu ríkisstjórnarinnar og í samræmi við hana eins og hún hefur verið á undanförnum árum og ríkisstjórnin hefur kynnt hana, ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. að meginhluta til með því að innleiða markaðskerfið í raforkugeirann og finna allar leiðir til að hækka arðsemiskröfu raforkugeirans til eigin fjár síns. Í staðinn fyrir að hafa að meginmarkmiði að skaffa notendum sínum raforku á sem lægstu verði er komin krafan um arð og arðgreiðslur sem gjörbreytir í sjálfu sér eðli þessarar starfsemi úr að vera þjónustustarfsemi í að verða arðgefandi starfsemi þar sem eigandinn hugsar um að ná peningalegum arði.

Það sem mér finnst samt vekja nokkra furðu er hvernig gengið er eiginlega bakdyramegin í gegnum þetta frumvarp um að leggja Orkubú Vestfjarða og Rarik undir Landsvirkjun. Það stendur svo rækilega að Landsvirkjun fari með hlutina í viðkomandi félögum. Þar stendur að Landsvirkjun eigi þessi fyrirtæki 100%. Þar stendur að eignarhlutar Orkubús Vestfjarða og Rariks verði hluti af eignum Landsvirkjunar og einnig að hið nýja hlutafélag sem á að stofna um starfsemina á vegum ríkisins eigi að fara með önnur réttindi og skyldur eins og skattalagaskyldur og þess háttar. Í raun er verið að sameina þessi þrjú fyrirtæki.

Eins er líka kveðið á um það í yfirlýsingu iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra sem þá voru Valgerður Sverrisdóttir, núna utanríkisráðherra, og Geir Haarde, nú forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Þar var þessu einmitt lýst yfir, eins og stendur í yfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Ríkið ráðgerir að sameina Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða hf. eftir að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Með því sameinar ríkið eigur sínar á raforkumarkaði í eitt fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og sölu raforku.“

Þarna var gert ráð fyrir að undirbúningur ætti að fylgja en af tæknilegum mistökum, eða hvað maður getur kallað það, er hann núna fyrst á ferðinni. Áfram segir í þessari yfirlýsingu, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að sameinuðu fyrirtæki Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða ehf. verði breytt í hlutafélag, þó eigi fyrr en á árinu 2008.“ — Þessu hefur öllu seinkað um tvö ár eins og við vitum. — „Með hlutafélagavæðingu eru sköpuð skilyrði fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu.“

Þetta er svo sem alveg í samræmi við þá stefnu sem hér er að gerast. Þó að Framsóknarflokkurinn reyni að fela eitthvað eða slá ryki í augu fólks með því að gera þarna fléttur í eignarhaldi er þetta það sem er að gerast og öllum ljóst.

Það sem ég ætla líka að spyrja hæstv. ráðherra út í tengist þessu hvoru tveggja. Það er um eignir þessara fyrirtækja. Í lögunum um Landsvirkjun eru í 6. gr. í núgildandi lögum taldar upp eignir Landsvirkjunar. Það sem hefur verið talað um, með leyfi forseta, er:

„Landsvirkjun reisir og rekur, samkvæmt lögum nr. 60/1981, um raforkuver, og samkvæmt sérstöku samkomulagi við ríkisstjórn Íslands, dagsettu 11. ágúst 1982, eftirtalin raforkuver að fengnu leyfi ráðherra orkumála ...“ og síðan eru taldar upp Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Síðan kemur áfram:

„Landsvirkjun reisir og rekur, samkvæmt lögum nr. 60/1981, eftirtalin raforkuver, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra skv. 7. gr. þessara laga: Búrfellsvirkjun, … Sultartangavirkjun, … Hrauneyjafossvirkjun, … Sigölduvirkjun, … Kröfluvirkjun, … Vatnsfellsvirkjun, … Búðarhálsvirkjun, … og Bjarnarflagsvirkjun.“

Síðan höfum við Laxárvirkjun sem var líka talin upp sem hluti af þessari eignasamstæðu. Þeir segja að samkvæmt sameignarsamningi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar taki Landsvirkjun hinn 1. júlí 1983 við eignarhlut ríkisins í Laxárvirkjun. Við heyrðum deilur fyrr á árinu um það með hvaða hætti Laxárvirkjun væri svo sett inn í þetta nýja fyrirhugaða eða sameinaða fyrirtæki eða inn í kaup á Landsvirkjun og verðmat á því. Það sem er hins vegar athyglisvert er að þær eignir sem eru nefndar í lögum um Landsvirkjun eru felldar út úr nýju lögunum.

Í nýja frumvarpinu stendur að þessi 6. gr. m.a. og einnig greinin um Laxárvirkjun séu felldar niður. Ég spyr hæstv. ráðherra hver ástæðan sé fyrir því. Er ástæðan sú að ef ekki er talið upp er hægt að selja þær aðgreint án þess t.d. að breyta lögum um Landsvirkjun? Eins og þau eru núna er þetta talið upp sem hluti í sérlögum sem gilda um Landsvirkjun en fellt niður núna. Ég spyr: Til hvers er verið að fella það burt? Er það til þess að fella burt eignirnar án þess að það þurfi að koma inn til lagabreytingar, geta selt einstakar virkjanir burt? Mig grunar það, það er í anda ríkisstjórnarinnar, einkavæðingarstefnu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að geta selt þetta í sjálfu sér síðan í burtu í bútum.

Sama spurning gildir reyndar einnig um Orkubú Vestfjarða og Rarik. Orkubú Vestfjarða á virkjanir og virkjanarétt, á víða dýrmætan virkjanarétt á sínu svæði. Hvernig er sú eign metin og er gert ráð fyrir hún hverfi líka inn í Landsvirkjun? Rarik á líka virkjanir og virkjanarétt sem er sértilgreindur í sérlögum þeirra. Það kemur mjög óljóst fram, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, hvernig fer með virkjanaréttinn þarna. Þó verður að skilja það svo að Landsvirkjun eignist sjálf, eða þetta nýja fyrirtæki sem verið er að stofna um Landsvirkjun, virkjanarétt og virkjanir þessara orkubúa, Orkubús Vestfjarða eða Rariks. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig þessi atriði séu í raun. Er verið að fara þarna líka bakdyramegin til að geta selt út stakar virkjanir og virkjanakosti sem núna heyra undir þessi þrjú fyrirtæki?

Það er athyglisvert í ljósi umræðunnar, einmitt þegar yfirlýsingin kom frá fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra á sínum tíma um að hugmyndin væri að sameina fyrirtæki Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í eitt hlutafélag, að þá brugðust Vestfirðingar ókvæða við. Hér er ég með úrklippu úr Bæjarins besta, blaðinu þar, sem er með yfirskriftina „Bæjarstjórn Ísafjarðar furðar sig á hugmyndum ráðherra um sameiningu orkufyrirtækja“. Þetta er ekki nýtt, þetta er frá 2005 þegar yfirlýsingin kom fram. „Áætlunin gengur í berhögg við byggðaáætlun fyrir Vestfirði,“ stendur hérna líka. Í þessari grein er því harðlega mótmælt að verið sé að sameina þessi fyrirtæki. Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkti ályktun þar sem furðu var lýst á að til stæði að gera samkomulag um sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða eins og komið hafði fram í fréttum.

Í umfjöllun í þessari grein er vitnað í tvo sveitarstjórnarmenn, Guðna Geir Jóhannesson og Lárus G. Valdimarsson, þar sem þeir lýsa því að þeim hefði verið lofað að þetta mundi ekki gerast, Orkubú Vestfjarða yrði ekki lagt inn í annað fyrirtæki. Hér vitna ég í viðtal við Lárus G. Valdimarsson, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lofaði því að hún mundi aldrei standa að því að sameina Orkubúið öðrum fyrirtækjum.“

Þau loforð voru gefin þegar Orkubú Vestfjarða var haft af sveitarfélögunum á sínum tíma. Að vísu voru sveitarfélögin sett í fjárhagslegu klemmu vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum, í samskiptum ríkis og sveitarfélaga o.s.frv. Sveitarfélögin á Vestfjörðum voru komin í mikla fjárhagslega klemmu og þá stillti ríkið þeim upp við vegg og sagði: Jú, jú, við skulum skera ykkur tímabundið úr snörunni gegn því að þið látið okkur hafa Orkubúið. Og sveitarfélögin á Vestfjörðum höfðu í rauninni ekki neina valmöguleika. Þeim var bara stillt upp við vegg og hótað því að annars yrðu gjaldfelldar á þau skuldir sem reyndar voru gjaldfallnar vegna Íbúðalánasjóðs og fleira. Þau voru knúin til að láta Orkubúið sitt sem hafði verið aðalstoð þeirra og stytta í uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Það hafði m.a. skaffað notendum rafmagn á lægra verði en annars gerðist. Auk þess hafði afli þess verið beitt til að styðja við atvinnurekstur þar. Það var mikil blóðtaka fyrir Vestfirðinga að missa Orkubúið með þessum hætti inn til ríkisins.

Á móti lofaði ríkið hinu og þessu, lofaði að það yrði ekki sameinað öðrum fyrirtækjum, lofaði að það yrði eflt og styrkt á eigin forsendum heima í héraði þeim til hagsbóta. Fyrr í umræðunni var minnst á loforð og efndir ráðherra en ég verð að líta svo á að þótt búið sé að skipta um einn og einn ráðherra í ríkisstjórninni sé sameiginleg ráðherraábyrgð á gjörðum hennar. Enginn getur skotið sér undan þeirri ábyrgð.

Ég held að þegar farið verður yfir öll loforðin og yfirlýsingarnar sem voru gefnar á Vestfjörðum þegar Orkubú Vestfjarða var tekið af sveitarfélögunum muni mönnum finnast efndir þeirra býsna þunnar nú. Þegar Orkubú Vestfjarða er sett inn í þetta nýja fyrirtæki, eignirnar teknar af því, virkjanirnar teknar af því — ég býst við að þær séu hluti af eignunum sem þarna er verið að setja inn — virkjanarétturinn tekinn af því sem Orkubú Vestfjarða hafði býst ég við að þeim finnist þetta vera heldur furðulegar efndir á loforðinu.

Hið sama gildir náttúrlega um Rarik. Rarik er í sjálfu sér fyrst og fremst byggt upp af sveitarfélögunum, af almennum notendum vítt og breitt um landið. Hefði verið réttara, ef á að fara að hræra til um eignarhald og meðferð á eignum Rariks, að þá hefði verið rætt við sveitarfélögin hvort ekki ætti að afhenda bara þeim Rarik. Ég hefði talið á ýmsan hátt eðlilegt að sveitarfélögin í landinu ættu Rarik sem þjónustufyrirtæki fyrir dreifingu og smásölu á rafmagni.

Frú forseti. Það má svo sem fara um þessi frumvörp ýmsum orðum. Ég ítreka að mér finnst miklu hreinlegra af hæstv. ráðherra að hann tali hreint út, sé ekki að búa til hér einhvern rykmökk af fléttum í kringum þessi mál. Við eigum að takast á og ræða þá pólitík sem þarna er á ferðinni, þá pólitík sem hefur verið kynnt. Það er verið að sameina þessi fyrirtæki og búa þau undir að verða sett á markað eða, eins og stendur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá febrúar 2005, skapa skilyrði fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu, hinu nýja og sameiginlega fyrirtæki. Það er hið eiginlega markmið.

Ég ítreka svo spurningu mína frá því áðan varðandi bæði Norðurorku og Skagafjarðarveitur. Sveitarfélaginu Skagafirði var stillt upp með líkum hætti þegar Rafveita Sauðárkróks sem malaði gull fyrir sveitarfélagið var tekin af því. Það var meiri hluti Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar þá í Skagafirði sem stóð fyrir því að afhenda Rarik Rafveitu Sauðárkróks. Það tókst að forða því að Skagafjarðarveitur færu á eftir, þ.e. reksturinn á hitaveitunum. Síðan hefur Rarik hirt hitaveitur af sveitarfélögum sem lent hafa í greiðsluvandræðum vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, m.a. í þessum málum. Hitaveita Blönduóss var tekin og Blönduósi stillt upp við vegg og tekin síðan af þeim hitaveitan. Búðardalur, Dalabyggð, hvað eftir annað hefur þeim verið stillt upp við vegg og veiturnar teknar af þeim. Jafnframt hefur verið sagt að þetta sé nú allt í lagi vegna þess að þetta er bara ríkisstofnun. Rarik er bara ríkisstofnun og verður það. Það var sagt þegar þessar veitur voru teknar af þeim, sagt að þetta væri bara ríkisstofnun og óhætt að treysta ríkinu.

Nú er þetta allt komið á einkavæðingarvagninn. Hversu hratt hann fer er óvíst en hann fer býsna hratt. Ég hefði talið óráðlegt hjá Framsóknarflokknum, bara flokkslega séð, að keyra á þessa einkavæðingu núna.

Ég bara vona, frú forseti, að þessi frumvörp nái ekki fram að ganga og að hægt verði að stöðva þessi einkavæðingaráform, það ferli sem hér er sett í gang. Að vori hljótum við að skipta um ríkisstjórn. Þá fáum við ríkisstjórn sem ber hag almennings meira fyrir brjósti, lítur á raforkuna fyrst og fremst sem þjónustustarfsemi gagnvart byggðunum í landinu, gagnvart fyrirtækjunum og almennum notendum, en ekki tæki fyrir einkavæðingarsinnaða ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í að koma á markað og hugsanlega síðan selja í áföngum, stórum eða smáum, eins og áformin liggja greinilega fyrir.