133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[21:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Við ræddum hér fyrr í dag og í kvöld annað frumvarp. Það fjallaði um kaup og sölu, „aðallega kaup,“ sagði hæstv. iðnaðarráðherra sem vildi þrengja sjónarhornið sem við hefðum á þá lagasmíð. Hann vildi að þannig ættum við að ræða málið, þ.e. á þröngan máta. Þetta frumvarp fjallar um að færa Rarik og Orkubú Vestfjarða undir regnhlíf Landsvirkjunar. Ef við ræðum málin þröngt blasir fyrst við að spyrja: Hvers vegna er þetta gert? Getur verið að það liggi á að styrkja Landsvirkjun, eigið fé Landsvirkjunar? Bókfært verð þessara stofnana, fyrirtækja, þessarar starfsemi er um 17 milljarðar kr., þ.e. Rariks og Orkubús Vestfjarða. Er leikurinn til þess gerður að styrkja stöðu Landsvirkjunar vegna þess að menn sjá einhverja erfiðleika fram undan og í stað þess að veita fjármuni úr ríkissjóði til Landsvirkjunar — nokkuð sem gæti verið pólitískt viðkvæmt — þá kjósi þeir að fara þessa leið? Þetta eru spurningar sem vakna ef við skoðum málin þröngt.

En við erum ekki að skoða málin bara þröngt. Við erum að ræða um framtíð raforkugeirans á Íslandi. Það var í rauninni ágætt sem fram kom hjá hæstv. iðnaðarráðherra í andsvari undir lok umræðu um fyrra frumvarpið. Þá sagði hann á þá leið að hér væri verið að þróa og þroska samkeppnismarkað í raforkugeiranum, þó þannig að hann svaraði samfélagslegum kröfum okkar og væri í samræmi við reglur hins Evrópska efnahagssvæðis. Þetta var kjarni máls. Gott og vel. Þetta er pólitískt markmið. En eigum við ekki að setja þá nánar inn í þessa mynd hvernig menn sjá þennan markað þróast og á hvern hátt þeir stuðla að því sem þeir telja æskilega framvindu með þessari ráðstöfun, að færa Rarik og Orkubú Vestfjarða undir hlíf Landsvirkjunar? Hvernig sjá menn landslagið í framhaldinu? Hvað með Norðurorku? Nú hefur heyrst að það gæti verið æskilegt að færa hana einnig inn í þessa samsteypu. Menn hafa rætt þann möguleika að sameina Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Mér finnst að þetta sé nokkuð sem okkur beri að ræða. Þetta eru samfélagseignir og ef það er markmiðið að þróa hér samkeppnismarkað á sviði raforkunnar þá eigum við að ræða það alveg til enda. Það er þetta sem við höfum verið að kalla eftir. Við höfum verið að kalla eftir þessari umræðu, þ.e. að menn tali alveg hreint og opið um þessi mál. Það var í því samhengi sem ég spurði um hvað vekti fyrir mönnum, ef við skoðuðum málin þröngt, með því að færa Rarik og Orkubú Vestfjarða inn í Landsvirkjunarsamsteypuna. Er það til að styrkja eigið fé Landsvirkjunar? Það væri fróðlegt að fá svör við þessu hér á eftir.

Það er í þessu samhengi sem við höfum verið að reyna að framkalla málefnalega umræðu um nákvæmlega þetta módel sem hæstv. iðnaðarráðherra lýsti. Við höfum verið að vísa til reynslunnar í Evrópu, í Bandaríkjunum, á Nýja-Sjálandi og víðs vegar um heiminn, á Norðurlöndunum, og bent á að þetta módel, þetta fyrirkomulag sem hæstv. iðnaðarráðherra lýsir þannig að það sé óskalandið, hafi ekki gefið góða raun fyrir notandann, fyrir kaupanda raforkunnar. Þess vegna dugir ekki að segja við okkur sem viljum ræða málin á þessum málefnalega grunni að þetta séu forneskjuleg viðhorf og þar með sé málið afgreitt.

Þetta eru ekki forneskjulegri viðhorf en svo að neytendasamtökin norsku, svo dæmi sé tekið, hafa andæft því sem er að gerast þar í landi. Sömu sögu er að segja í Svíþjóð. Þar hafa verkalýðsfélögin mótmælt þessu fyrirkomulagi og bent á veikleikana í þessu skipulagi, hvernig sífellt minna sé fjárfest í mannauði, minna hugsað til fyrirbyggjandi aðgerða þannig að þegar á reynir þurfi menn að kaupa rafmagn dýrum dómum frá Póllandi og Þýskalandi og víðar. Vegna þess að fjárfestarnir vilja hala sem mestan arð út úr starfseminni sýna þeir ekki þá fyrirhyggju sem hinn opinberi eigandi gerði áður sem ekki lét stjórnast af arðsemiskröfum.

Síðan sjáum við að tilraunir okkar til að fara inn á samkeppnismarkað hafa að minnsta kosti ekki enn þá skilað okkur lægra raforkuverði og við heyrum mikla gagnrýni sem fram hefur komið. Ég hef hér í ræðustól, hv. þm. Jón Bjarnason og aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og annarra flokka, hv. þm. Jóhann Ársælsson sem hefur verið mjög ötull og vakandi í þessari umræðu — marga fleiri mætti nefna, úr Frjálslynda flokknum til dæmis og fleiri — höfum bent á þessar staðreyndir og reynt að kalla eftir málefnalegri umræðu um málið. Hér fyrr á tíð var vinstri mönnum oft núið því um nasir að þeir létu stjórnast af hugmyndafræði og neituðu að horfa til reynslunnar. Þeir svöruðu því iðulega þá til að þeir væru að búa til nýjan heim og við skyldum bara bíða þar til hann væri orðinn til og þá skyldum við meta árangurinn á grundvelli nýrrar mælistiku. Nú hefur þessu verið snúið við. Nú viljum við sem erum kenndir við vinstri stefnu horfa til reynslunnar en hugmyndafræðingar og fylgjendur harðlínumarkaðshyggju og hægri stefnu segja: Við erum að búa til nýjan heim. Bíðið með að dæma okkur þar til hægt er að bregða mælistikunni á veruleikann. — Er ekki búið að snúa heiminum svolítið á hvolf að þessu leyti? Trúa ekki stjórnvöld og ríkisstjórnin í þessu tilviki, og ekki bara hér á landi heldur er þetta að gerast víða um heim, svo grimmt á sína hugmyndafræði að þau neita að horfast í augu við veruleikann, neita að horfa til reynslunnar?

Ég er búinn að taka hér í ræðustól oft og mörgum sinnum fram töflur sem sýna þróun raforkuverðsins í Evrópu og tengja það við þessa markaðsvæðingu og árangurinn er ekki sem skyldi. Ég vitnaði fyrr í dag í framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði raforkumála, sem hingað kom og talaði í þessa veru. Þetta var mjög harður markaðssinni frá einhverju Eystrasaltsríkjanna sem sagði: Sá tími mun koma að þetta mun skila okkur lægra verði og verður hagstæðara, hann er bara ekki kominn. Það viðurkenndi hann.

Það er í því ljósi sem mér finnst ástæða til að beina sérstaklega orðum til Framsóknarflokksins, þessa gamla samvinnuflokks sem bar uppi samvinnuhugsjónina til sveita öðrum flokkum fremur, sem trúði því á sínum tíma og ekki að ástæðulausu að með sameiginlegu átaki gætum við lyft grettistaki. Við gerðum það. Það voru ekki bara stofnuð samvinnufélög heldur bundust menn í bæjum samtökum og tóku höndum saman um ýmis þjóðþrifamál. Það er þetta sem við erum að tala fyrir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að þegar kemur að almannaþjónustunni eigum við ekki að segja skilið við slíka hugsun. Við eigum að vinna saman. Við eigum að sjá á hvern hátt við getum nýtt samvinnu manna.

Ég minnist þess að hlusta einhvern tíma á fyrrverandi póst- og símamálastjóra lýsa þeirri breytingu sem varð þegar símafyrirtækin á Norðurlöndum voru gerð að hlutafélögum. Hann lýsti því þannig að áður fyrr hefðu menn komið frá öllum Norðurlöndunum, sest á rökstóla, skipst á skoðunum og upplýsingum og rætt það hvernig þeir gætu hjálpað hver öðrum. Þetta var umræðan. Þetta hefði skilað góðum og miklum árangri. Við hefðum fengið mikla aðstoð frá systurfyrirtækjunum á Norðurlöndum. Ég minnist þessa líka sem starfsmaður Ríkisútvarpsins hvernig þessi samvinna, samvinnuhugsun og hugsjón var öllum til góðs.

Nema hvað, fyrrverandi póst- og símamálastjóri, Ólafur Tómasson, sagði að síðan hefði orðið breyting á við hlutafélagavæðinguna. Þá skyndilega voru að ræðast við samkeppnisaðilar, og myndrænt lýsti hann þessu hvernig menn hefðu haft hnífinn uppi í erminni. Myndræn lýsing á viðhorfsbreytingu, hvernig samkeppnisaðilarnir voru núna farnir að ræðast við, ekki til að hjálpa hver öðrum, nei, nú voru þeir andstæðingar, nema þegar einn fjárfesti í öðrum.

Mér finnst að við eigum ekki að gera lítið úr þeirri breytingu. Við eigum líka að ræða hana í alvöru, hvort það geti verið að okkur Íslendingum vegni betur ef við virkjum samstöðuna, að við leggjumst saman á árarnar í stað þess að leggja eins mikið upp úr samkeppninni og mér finnst ríkisstjórnin gera og hæstv. iðnaðarráðherra nefndi í markmiðslýsingu sinni áðan. Ég tel að í ljósi reynslunnar, bæði hér á landi og þess sem er að gerast erlendis líka, sé ekki hyggilegt að halda út á þessa braut, ég tel það ekki vera hyggilegt. Ég held að hér þróist fákeppnismarkaður. Hugsanlega verði það tvö eða þrjú fyrirtæki sem koma til með að skipta með sér markaðnum og komi ekki til með að berjast á grundvelli verðlags, ég held ekki, hef ekki trú á því.

Reynslan sýnir erlendis frá að þetta hefur ekki orðið reyndin. Við þekkjum það á öðrum sviðum, t.d. í vatninu, þar sem vatnsfyrirtækin skipta með sér markaðnum. Þetta er að vísu öðruvísi, auðveldara er að koma við samkeppni í raforku en í vatni, þar er bara eitt leiðslukerfi en hér er möguleiki á margbreytileika. Það er vissulega auðveldara að koma á raforkusamkeppni en í vatni. Engu að síður segir reynslan það, hún segir það frá Noregi, hún segir það bara víðast hvar og kom fram í máli talsmanns Evrópusambandsins líka, að hvorki einstaklingar né fyrirtæki láta stjórnast af verðlagssjónarmiðum þegar þau velja viðskiptafyrirtæki, það eru önnur sjónarmið sem ráða, og þetta hafi ekki gefið þá raun sem menn höfðu búist við.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta, nema hvað mér finnst mjög hart að þegar menn reyna að leiða umræðuna út á þessar brautir og horfa jafnframt á það sem er að gerast í íslenskum veruleika, horfa á hvernig fjármálamenn og fjármagnsöfl eru að læsa klónum um stóran hluta samfélagsins, þá sé vafasamt að fara með samfélagseignir út á markað, þegar verið er að setja málin inn í þetta samhengi, þetta málefnalega samhengi, þá er þetta allt afgreitt út af borðinu sem misskilningur eða útúrsnúningur. Þetta er enginn misskilningur eða útúrsnúningur.

Ég er alveg reiðubúinn að koma hér eina ferðina enn í 2. og 3. umr. um málið og koma með allar töflurnar, allar staðreyndirnar, allar verðlagsforsendurnar og ræða þær við talsmenn þessara frumvarpa, ég hef gert það mjög oft, það er orðin ansi mikil margendurtekning á því. En það er eins og útilokað sé að fá málefnaleg viðbrögð við þeirri umræðu. Það er bara öllu ýtt út af borðinu að hætti manna sem trúa mjög stíft á sína hugsun og neita að horfa til reynslunnar. Það tel ég vera mjög varhugavert.