133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[21:38]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Formaður Framsóknarflokksins segir að framsóknarmenn — og alhæfir fyrir þeirra hönd — segi að markaðurinn eigi að lúta siðferðilegum lögmálum. Ja, betur væri nú ef svo hefði verið á undanförnum missirum og árum. Þar vísa ég til þess sem hefur gerst í skjóli einkavæðingar undanfarinna ára.

Ég legg áherslu á að við gleymum því ekki að raforkugeirinn á Íslandi hefur verið byggður upp eins og margt annað og nánast allir þættir almannaþjónustunnar, á grundvelli samvinnu. Á þessum árum — ég er að horfa til nokkurra ára — stöndum við á tímamótum, ekki bara hér á landi heldur víða í okkar heimshluta, um val á milli tveggja leiða: Á að þroska, svo ég noti orðfæri hæstv. ráðherra, samvinnuaðferðina, hina samfélagslegu leið, eða á að halda út á braut markaðshyggju? Hæstv. ráðherra vill að við höldum hægt út á þá braut en hann vill greinilega að við höldum út á þá braut.

Finnst hæstv. ráðherra og formanni Framsóknarflokksins ekki koma til álita að reyna að þróa og þroska hina samfélagslegu leið, leið samvinnunnar?