133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[21:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki vera með neinar hálfkveðnar vísur. Ég tel að einkavæðing ríkisbankanna á sínum tíma, ekki síst Búnaðarbankans en beggja bankanna, hafi verið mjög vafasöm og þar hafi gætt spillingar sem enn á eftir að upplýsa. Ég sagði hér fyrr í kvöld að ég hefði lagt fram fyrirspurn á Alþingi og fengið svör sem ég tel vera ófullnægjandi. Ég mun aftur og áður en þetta þing er úti, áður en við göngum til kosninga, ganga eftir því að fá þessar upplýsingar fram í dagsljósið. Það verða engar hálfkveðnar vísur.

Það hafa hins vegar verið hálfkveðnar vísur af hálfu stjórnvalda í garð þeirra sem hafa leyft sér að gagnrýna einkavæðingu ríkisstjórnarinnar.