133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

breyting á lögum á orkusviði.

365. mál
[21:42]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að reyna að spyrja hæstv. ráðherra meira, mér finnst hann ekki bregðast við með þeim hætti að ég eigi von á betri svörum en komin eru og frá minni hendi er því umræðan kannski tæmd. Ég vil þó segja að þegar hæstv. ráðherra sagði áðan að ekki hefði verið talin þörf á að styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar og fyrr í dag endurtekið að eiginfjárstaða Landsvirkjunar væri traust, að rökin fyrir því að sameina þessi orkufyrirtæki eru orðin æði fátækleg.

Ég vil því ljúka máli mínu á því að segja að mér finnst að hér hafi ekki verið talað hreint út. Ég trúi því ekki að ekki séu til sterkari og betri rök fyrir því að búa til eitt fyrirtæki á þessu sviði, þ.e. orkusviðinu, úr öllum fyrirtækjum ríkisins heldur en komið hafa fram. Ég á von á því að raunveruleikinn sé sá að þarna á bak við sé það sem ég hef verið að gefa til kynna í dag og í þessari umræðu, að menn telji svona óskaplega mikla þörf á því að tryggja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar að það þurfi að ganga frá málunum með þessum hætti. Menn eigi von á því að sú gríðarlega fjárfesting sem hefur farið fram á Austurlandi sé Landsvirkjun í raun og veru ofviða. Þess vegna sé gert ráð fyrir þessu og þess vegna sé varnaglinn í samningnum við Reykjavíkurborg og Akureyri um að þriðji aðili geti komið með eigið fé inn í Landsvirkjun innan fimm ára.