133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:33]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Um er að ræða 19 fjölbýlishús af rúmlega 500 mannvirkjum á svæðinu þar sem rör sprungu sökum frosthörku. Um er að ræða 13 hús sem eru mjög skemmd og sex sem eru minna skemmd. Einungis byggingar á athafnasvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. skemmdust. Það er ekki vitað til þess að skemmst hafi nein mannvirki á flugvallarsvæðinu eða öryggissvæðinu. Nákvæmar upplýsingar um umfang tjónsins liggja því miður ekki fyrir á þessari stundu en það er ekki verið að tala um hundruð milljóna, frekar tugi. Það liggur fyrir. (Gripið fram í.) Það er líka allt of mikið, það skal ég taka hér fram.

Það er sem sagt verið að vinna að úttektinni og hún mun leiða í ljós nákvæmlega kostnaðinn en ég vil taka sérstaklega fram, ekki síst vegna orða hv. málshefjanda, að það var hiti á húsunum. Þau rör sem sprungu voru einkum kaldavatnsleiðslur og líklega vegna þess að þegar ekki er búið í húsum hreyfist ekki vatnið. Auðvitað eru þetta öðruvísi hús en Íslendingar eiga að venjast hér, og ekki byggð samkvæmt íslenskum stöðlum o.s.frv. (Gripið fram í: … bara vatn.) Íslenska ríkið mun bera tjónið, það liggur fyrir. Þessar eignir voru ekki tryggðar frekar en er almennt stefna ríkisins í sambandi við tryggingar.

Það er vissulega hægt að halda því fram að þarna hefði átt að vera eitthvert viðhaldseftirlit en þá hefði líka kostað peninga að halda því í gangi. Eftirlitið sem þarna hefur verið hefur verið á vegum sýslumannsembættisins og hefur miklu frekar snúið að mannaferðum. (Forseti hringir.) Ég ætla bara að taka fram að mér þykir mjög leitt að þetta skuli hafa gerst (Forseti hringir.) og biðst afsökunar á því.