133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:39]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu hafa talað tveir bændur. Hér talar fyrrverandi sjómaður. Það hefur verið venja hjá þessum stéttum landsins að fylgjast með veðri og veðurspám. Þeir aðilar sem hafa þessa starfsreynslu ættu auðvitað að hafa gert sér grein fyrir því að ákveðið froststig og ákveðinn vindur myndar ákveðna kælingu. Þetta veit ég að hæstv. utanríkisráðherra veit mætavel.

Það þarf kannski að koma þessari þekkingu til þeirra aðila sem hafa eftirlit með húsunum að 6 stiga frost og 7 vindstig búa til mikla kælingu. Hafi það ekki verið þeim ljóst sem áttu að hafa eftirlit með þessum húsum hefur þekking hæstv. utanríkisráðherra ekki komist til skila til þess fólks sem átti að líta eftir þessu.

Hitt er annað mál varðandi þær eignir sem við erum að tala um að verið var að setja heimildargrein inn í fjárlögin um að þeim mætti ráðstafa til borgaralegra nota. Þær verða sennilega ekki mikils virði eins og þær líta út í dag, a.m.k. þær sem verst eru farnar, sem er mikill skaði. Það er alveg furðulegt að það skuli ekki vera klappað og klárt að menn sem eiga að hafa eftirlit með þessum húsum geri sér grein fyrir því að íslenskt veðurfar sé eins og það er og geti þá brugðist við og séð til þess að þjóðin verði ekki fyrir stórskaða vegna handvammar.