133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:41]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Mér er mjög til efs að lögreglurannsókn þurfi að fara fram þó að orðið hafi frostskemmdir í mannvirkjum á Íslandi. Það hefur gerst áður. Eins og hér hefur komið fram varð mikið slys á Keflavíkurflugvelli og orsakirnar eru fyrst og fremst kuldi, hátt vindstig en síðast en ekki síst að þarna eru mannlaus mannvirki. Þetta eru mannlausar íbúðir og hugsanlega hefði eftirlitið mátt vera meira.

Það liggur líka fyrir að ríkisvaldið situr uppi með mikið tjón og þar er kannski hættan í hnotskurn, að eftir að varnarliðið fór eignaðist íslenska ríkið mannvirki, sum hver glæsileg, tugþúsundir fermetra sem eru mikil verðmæti ef þeir komast í notkun. En þar liggur líka hættan, því lengur sem þessi mannvirki standa ónotuð, þeim mun meiri líkur eru á slysum af þessu tagi. Þeim mun minni líkur eru á að einhver verðmæti fáist út úr þessum mannvirkjum. Þess vegna er mjög mikilvægt að Þróunarfélagið sem var stofnað um rekstur vallarins fái þessi mannvirki til ráðstöfunar. Markmið Þróunarfélagsins er ekki síst það að koma mannvirkjunum í notkun. Þannig verða til verðmæti úr þessum mannvirkjum. Þannig er hægt að koma í veg fyrir frekari slys, þ.e. með því að taka mannvirkin í notkun. Þannig búum við til verðmæti fyrir ríkissjóð og þannig búum við til verðmæti fyrir samfélagið á Suðurnesjum.