133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:42]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg ljóst af svörum hæstv. ráðherra að það var ekkert eftirlit innan dyra í þeim mörgu húsum sem þarna standa og hafa staðið auð frá því að herinn fór. Maður hlýtur að spyrja hvernig í ósköpunum geti staðið á því að utanríkisráðuneytið, sem fer með þessi mál og hefur þessi hús á sinni könnu, gangi þannig frá málum að ekkert eftirlit sé innan dyra í húsunum. Ef við bregðum okkur frá í hálfan mánuð í frí til sólarlanda eða eitthvað slíkt fáum við fólk til að fara inn í húsin okkar á þessum hálfa mánuði bara til að sjá hvort ekki sé örugglega allt í lagi. Það er hygginna manna háttur. Það verður ekki hægt að segja að utanríkisráðuneytið hafi staðið sína plikt þarna.

Mér finnst hæstv. ráðherra reyna að tala þetta tjón niður, þetta hafi verið öðruvísi hús og að við þurfum að gera okkur grein fyrir því. Hæstv. ráðherra sagði líka í sjónvarpsfréttum klukkan 12 að einhver hús hefði átt að rífa. Ég er ekki viss um að það séu þessi hús sem átti að rífa. Þetta er mikið tjón. 13 fjölbýlishús mjög skemmd af vatni, sagði hæstv. ráðherra sjálf áðan.

Gerum okkur í hugarlund að í 13 fjölbýlishúsum í Breiðholti hefðu orðið miklar vatnsskemmdir, tugir íbúða í hverju húsi. Hefðum við talað um lítið tjón? Hefðum við reynt að telja fólki trú um að hér væri um tugmilljóna króna tjón að ræða en ekki hundruð milljóna? Við vitum það sem höfum lent í vatnsskemmdum innan dyra hvað það kostar að gera við slíkar skemmdir. Það er aldrei undir 1,5–2 millj. á íbúð. Ef íbúðirnar eru 200 getur hver sem er reiknað.

Utanríkisráðuneytinu var margoft bent á það af fleiri en einum aðila að það væri nauðsynlegt að láta fara fram eftirlit innan dyra í þessum húsum. Utanríkisráðuneytið brást ekki við, og við hljótum að spyrja: Hver ber á því ábyrgð? Hver ber ábyrgðina á því að það hefur orðið tjón upp á fleiri hundruð milljónir? Það er ekki nóg að koma hér og segja: Ég biðst afsökunar.