133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[13:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu áhugamáli okkar margra, fjarskiptum á Íslandi og uppbyggingu fjarskiptakerfanna. Í kjölfar þess að við gerðumst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði voru fjarskipti gefin frjáls á Íslandi. Það var stofnað sérstakt félag um Símann og Pósturinn slitinn frá þessu fyrirtæki á sínum tíma, 1997. Eftir það hefur Síminn, Landssími Íslands hf. áður, starfað á samkeppnismarkaði og Póst- og fjarskiptastofnun haft það hlutverk að sinna stjórnsýsluaðhaldi og eftirliti. Síðan voru hlutabréfin í Símanum seld og nú er rúmt ár síðan ríkið sleppti algerlega hendinni af þessum rekstri. Samfara því var stofnaður svokallaður Fjarskiptasjóður sem hefur það verkefni að halda áfram að byggja upp í dreifbýlinu.

Á þessum síðustu árum hefur orðið geysilega hröð þróun í uppbyggingu fjarskiptanna. Þétting farsímanetanna hefur orðið mjög hröð og uppbygging mikil. Árið 2000 voru 187 þús. notendur GSM-síma. Í ár eru þeir 284 þús. þannig að það er geysileg aukning á þessum tíma.

Háhraðatengingar hafa byggst upp á vegum fjarskiptafyrirtækjanna. Árið 2004 svaraði ég fyrirspurn með að það væru 20 þús. íbúar sem ekki hefðu aðgang að háhraðatengingum. Í síðustu viku svaraði ég sambærilegri fyrirspurn með að það væru 6.300 þannig að breytingin er geysilega mikil í þessari uppbyggingu á undanförnum árum. Fleira mætti telja en ég hef því miður ekki tíma til að fara ofan í það.

Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu frá síðasta ári hafa Íslendingar greitt lægstu gjöld fyrir heimilissíma ef miðað er við kaupgetu, og fyrir árið 2006 er niðurstaða fyrirtækisins Teligen sú að Ísland er með þriðja lægsta kostnað fyrir meðalnotkun á heimilissíma á eftir Kanada og Bandaríkjunum. Staða okkar hvað þetta varðar er býsna góð í samanburði við önnur lönd. Ef miðað er við meðalnotkun heimilissíma á Norðurlöndum er ódýrast hér á landi að nota heimilissíma. Þetta eru geysilega mikilvægar upplýsingar, finnst mér.

En síðan er margs konar önnur þjónusta á sviði fjarskiptanna sem heimilin þurfa að nýta sér, og nýta sér mjög vel. Sérstaklega er það farsíminn. (Gripið fram í: Hann er …) Ég á ekki von á því að svo sé. En í nýlegri úttekt á vegum eftirlitsstofnana var þessi markaður greindur. Nokkrar deilur hafa staðið á milli stofnananna sem gerðu úttektina og fjarskiptafyrirtækjanna þannig að það er best að hafa sem fæst orð um þær orðræður fjarskiptafyrirtækjanna og eftirlitsstofnananna á meðan verið er að greiða úr þeirri flækju. Það er hins vegar alveg ljóst að það þarf að veita fjarskiptafyrirtækjunum hart eftirlit á markaði. Bæði samkeppnisyfirvöld og Póst- og fjarskiptastofnun veita þessum fyrirtækjum að sjálfsögðu aðhald eins og lög gera ráð fyrir.

Póst- og fjarskiptastofnun vinnur nú að markaðsgreiningu fyrir farsímamarkaðinn. Ef markaðsgreining leiðir í ljós að ekki ríkir virk samkeppni á viðkomandi markaði og að fjarskiptafyrirtæki á þeim markaði, eitt eða fleiri, hafa umtalsverða markaðshlutdeild getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt kvaðir á viðkomandi fyrirtæki til að skapa keppinautum þeirra eðlileg samkeppnisskilyrði og draga úr hugsanlegum áhrifum fyrirtækja á samkeppnina á markaðnum. Um þetta er fjallað í fjarskiptalögum. Þetta er sú vörn sem við höfum á forsendum laga til að tryggja hagsmuni hins almenna notanda. Við hljótum að vísa til þess hér í umræðu á Alþingi hvaða lagaramma við höfum sett til að tryggja hagsmuni neytenda. Ég vísa til þess út af fyrirspurnum hv. þingmanns að við höfum ekki á borðinu í samgönguráðuneytinu neina sérstaka úttekt á stöðu þessara mála. Samkeppnisyfirvöld og Póst- og fjarskiptastofnun eru að vinna í þessu sérstaklega og það beinist m.a. (Forseti hringir.) að farsímamarkaði eins og fyrr kom fram hjá mér í þessu svari.