133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún undirstrikar það hversu fjarskiptamál, símamálin, eru mikilvæg fyrir alla íbúa landsins hvar sem þeir búa. Ekkert er mikilvægara til að jafna búsetuskilyrði í landinu en jafnt aðgengi að fjarskiptum. Þar þurfa að vera jöfn gæði og sama verð en svo er ekki. Bilið virðist aftur farið að breikka milli íbúanna eftir því hvar þeir búa.

Það var metnaðarmál fyrir nokkrum árum að koma á jöfnuði milli allra landsmanna hvað þetta varðaði og styrk Landssímans var beitt í þeim tilgangi. En nú virðist þetta því miður hafa færst á annan veg. Við ræddum til að mynda áðan um verðhækkanir á farsímamarkaðnum.

Valgeir Guðjónsson, sem söng einu sinni um „Landssímalínu“ á árum áður, segir í viðtali við Fréttablaðið 29. september út af þessu: „Ja, verður maður ekki að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti?“ þegar rætt var um hækkanirnar. Nei, ég er ekki sammála að taka eigi þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Við eigum að bregðast við. Okkur ber samfélagsleg skylda til að standa vörð um og byggja upp þessa þjónustu um allt land. Við eigum ekki að láta þetta yfir okkur ganga og taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, einkavæðingu Símans, einkavæðingu orkugeirans o.s.frv. Nei.

Síminn er seldur. Hann skilar reyndar 2,5 milljörðum í arð á ári, svipuðu og núna er verið að leggja í Fjarskiptasjóð. Það var umræða um að grunnnetið væri til sölu fyrir nokkrum vikum. Væri kannski ráð að við skoðuðum þann möguleika að kaupa aftur grunnnetið þannig að nýta megi það til að styrkja flutningskerfið út um allt land.

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að á þessum málum verði tekið af mikilli alvöru. Þetta styrkir okkur sem eina þjóð, (Forseti hringir.) að við stöndum saman og allir sitji hér við sama borð.