133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[14:24]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég er satt að segja mjög ánægður með hversu mikill áhugi er á þessu viðfangsefni, fjarskiptamálunum. Það vekur líka athygli mína að jafnvel hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir enn ríkari kröfur til árangurs núna, eftir að búið er að selja Símann, um uppbyggingu en hann gat gert áður en Síminn var seldur, ef ég skil frammíkall hv. þingmanns áðan. (ÖJ: Í samræmi við breytta tækni, að sjálfsögðu.)

En aðalatriðið sem kemur út úr þessari umræðu er að halda mætti að hv. þingmenn hefðu ekki komið í kjördæmi sitt lengi, t.d. hv. þm. Sigurjón Þórðarson. Ég tala nú ekki um málflutning hv. 6. þm. Norðvest. og þá óskaplegu neikvæðni. Ég velti því fyrir mér hvort þessi óskaplega neikvæði málflutningur í garð þjónustu við landsbyggðina og söngur um að allt sé að fara í kalda kol birtist síðan í prófkjörsárangri þingmanna. Ég held að hv. þingmenn gætu velt því fyrir sér í Samfylkingunni. (SigurjÞ: Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því.) Hins vegar er ástæða til þess að undirstrika það að uppbyggingin á sviði fjarskipta hefur verið mikil. Ég dreg ekkert í land með það sem ég hef sagt hvað það varðar. Það er í samræmi við kröfurnar sem við gerum. Við viljum hafa góð fjarskipti í landinu og þau skipta okkur miklu máli.

Grunnnetið var jafnvel til sölu, sagði hv. þm. Jón Bjarnason. Á hvers vegum var það? Hverjir voru að ræða um það? Það voru Vinstri grænir í borgarstjórn innan Orkuveitunnar að velta fyrir sér hvort kaupa ætti grunnnetið af Símanum. Það voru ekki sjálfstæðismenn. Það ber ekki allt upp á sama daginn (Forseti hringir.) hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna (Forseti hringir.) — eitt eru orð og annað eru athafnir.