133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er kannski ofsagt að þingið hafi verið búið að ákveða eitthvað tiltekið í þessum efnum þó að auðvitað kæmi fram ákveðin skoðun í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar. Eðli málsins samkvæmt verður þessari gjaldtöku ekki fram haldið nema hv. Alþingi ákveði það í þessum þingsal. Ég held því að ástæðulaust sé að gera því skóna að verið sé að fara viljandi, beinlínis eða með einbeittum brotavilja, eða hvernig menn vilja orða það, gegn vilja þingsins.

Hér er verið að bera fram frumvarp fyrir þingið til að taka afstöðu til. Út af fyrir sig má þá velta því fyrir sér líka, ef þessi leið til að afla tekna fyrir stofnunina verður ekki valin, hvaða aðrar leiðir kæmu þá til greina. Það er verkefni þeirrar nefndar sem ég nefndi að reyna að finna út úr því.

Ég hef ekki handbærar tölur um hvað áætlað var í upphafi að heildarumfang verkefnisins mundi verða. Hins vegar held ég að það sé alveg ljóst af því sem komið hefur fram hér að umfangið var miklu meira en menn áætluðu í upphafi. Það sést annars (Forseti hringir.) vegar af því … Er tíminn búinn? Ég skal þá stytta mál mitt, frú forseti, en augljóslega var umfangið miklum mun meira en menn áætluðu í upphafi, samanber fyrri framlengingu á ákvæðinu og það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram.

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst afsökunar en tímasetningin er eitthvað að trufla okkur.)