133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er auðvitað um að ræða gjaldtöku á fasteignaeigendur og þetta er eiginlega framhald á sérskatti. Það má kannski segja að þetta komi til viðbótar því sem tengist vanefndum á vaxtabótum og er til kostnaðarauka fyrir fólk, skuldsetta einstaklinga sem hafa verið að reyna að eignast íbúðir og eru skráðir fyrir fasteignum.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, af því hér er um mikla fjármuni að ræða sem hafa farið langt fram úr því sem gert var ráð fyrir í upphafi, hvort ekki þurfi að gera úttekt á því hvernig að þessu verki hefur verið staðið og hvað hér er á ferðinni.

Það vill svo til að við höfum stofnun til að gera það. Það væri sjálfsagt eðlilegast að ríkisendurskoðandi skoðaði málið, skoðaði þennan kostnað og gerði úttekt á þessu ferli og skilaði skýrslu um það til þingsins. Ég held að það sé full þörf á því að það verði gert. Það er svo kannski annað mál að ræða hér um þróun fasteignaverðs og fasteignaskatta en það er auðvitað þannig að þegar fasteignaverð hækkar verulega keyra fasteignaskattarnir fram úr tekjuþróun fólks og það hefur verið að gerast.

Við horfum því á þrennt sem hefur verið að gerast. Í fyrsta lagi á fasteignaverð sem hefur hækkað mikið og þar af leiðandi fasteignaskattar á fólk umfram launaþróun. Í öðru lagi á þennan sérstaka skatt. Og í þriðja lagi á framkvæmd vaxtabótanna sem mig minnir að ASÍ hafi verið að senda frá sér að þyrftu að hækka um 80% en ekki 25% til að fólk verði jafnsett.