133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:53]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort það sé eðlilegt að óháður aðili fari yfir þann kostnað sem þarna hefur orðið. Ég vil leyfa mér að álykta sem svo að Ríkisendurskoðun sem fer yfir reikninga ríkisaðila geri það, það þurfi ekki sérstaklega að ræða um það við hana, hún meti hvort það sé eitthvað óeðlilegt sem þarna kemur fram. Síst hef ég á móti því að slíkt verði gert. Ríkisendurskoðun hefur bæði rétt og skyldur til að taka upp mál sem hún verður vör við að hugsanlega gætu verið óeðlileg. Ég hef enga ástæðu til að ætla það en ef Ríkisendurskoðun telur einhverja ástæðu til að ætla það hef ég ekkert á móti því að hún skoði það.

Hins vegar er spurningin um hverjir séu eðlilegustu greiðendur þessa verkefnis, þeirrar þjónustu sem þarna fer fram. Ég held að hv. þingmenn geti að vissu leyti lesið í það með samsetningu nefndarinnar sem ég nefndi hvaða aðilar hafa þarna hagsmuna að gæta. Mér finnst alls ekkert óeðlilegt við það að í fyrstu umferð og þegar verið er að setja þetta á stofn geri fasteignaeigendur það. Þeir eiga auðvitað mest undir í þessu. Síðan kæmi til álita með þá sem þjóna fasteignaeigendum.

Ég held að það væri rangt ef við færum að yfirfæra þennan kostnað á þá sem ekki eiga fasteignir og eiga ekki hagsmuna að gæta í þessu tilfelli, ef það skyldi hafa hvarflað að hv. þingmanni.