133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:59]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna sem felst aðallega í því að framlengja gjald sem hefur runnið til Fasteignamats ríkisins til að byggja upp þá skrá sem heitir Landskrá fasteigna.

Ég vil fyrst taka það fram að þetta verkefni er afskaplega mikilvægt. Landskrá fasteigna sparar mikla fjármuni með því að hafa þetta allt á einum stað og hún hefur líka reynst vera mjög gott kerfi. Þeir sem hafa skoðað það á netinu finnst það frábært, kannski einum of dýrt og einum of flott, ég veit það ekki en það er í alla staði mjög gott.

Ég vil benda á að fasteignamat er undirstaða markaðsbúskapar yfirleitt, undirstaða hagkerfis okkar og margir hafa fært fyrir því rök, þar á meðal hagfræðingurinn de Soto sem skrifaði bókina um undur fjármagnsins, að gott fasteignamat er undirstaða þess að hagkerfi geti gengið. (Gripið fram í.) Fasteignamatið hefur verið mjög lengi við lýði, frú forseti, þannig að hér á Íslandi hafa menn getað skráð eignir sínar en því er ekki þannig farið í öðrum löndum þar sem efnahagslífið gengur ekki eins vel þannig að þetta er í alla staði mjög mikilvægt.

Verkefnið sem við ræðum hér, þ.e. uppbygging þessarar skrár er mikið athugunarefni og virkilega aðfinnsluvert hvað það hefur farið mikið úr böndunum. Vitaskuld hefðu menn á sínum tíma átt að bjóða verkefnið út. Þetta er einmitt verkefni sem hefði verið mjög snjallt að bjóða út, gera um það samning og þá hefði kostnaðurinn örugglega ekki farið svona úr böndunum eins og hann sýnist gera, því eins og hér hefur verið bent á er þetta þrefalt eða fjórfalt dýrara en til stóð. Ýmsar ástæður eru nefndar, t.d. að misræmi í upplýsingum í fasteignaskrá og þinglýsingaskrá hafi verið meira en menn ætluðu og það kostar eflaust töluvert mikið að leiðrétta það. Fyrir vikið erum við með miklu betri þinglýsingaskrá og miklu betri skrár í heildina. En það réttlætir ekki þennan mikla kostnað og að sjálfsögðu hefði átt að bjóða þetta út.

Mér finnst líka, eftir þá umræðu sem fór fram þegar þetta var síðast framlengt, og efnahags- og viðskiptanefnd lagði á sig mikla vinnu við að kanna kerfið og hvaða kostnaður væri í því fólginn, að stofnunin sé í rauninni að gefa efnahags- og viðskiptanefnd langt nef, ég verð að segja það. Það voru ákveðnar áætlanir, menn töldu sig geta náð þessu með þeim hætti en það gerðist ekki og nú erum við aftur í þeirri stöðu að þurfa og verða að framlengja þetta gjald. Ég segi verða, vegna þess að verkið er ekki enn þá alveg búið.

Hér hefur verið nefnt að ríkið noti þetta minna en verið hefur þar sem eignarskattur hefur verið aflagður og sveitarfélögin noti þetta í auknum mæli vegna fasteignagjalda. Bankar, fasteignasalar og tryggingafélög nota þessa skrá mjög mikið þannig að það er á margan hátt mjög óeðlilegt að einungis fasteignaeigendur borgi þetta gjald, af öllum þeim sem njóta þess. Þess vegna var lagt til að menn skönnuðu að láta þá aðila sem nota skrána borga meira fyrir hana með hærri skráningargjöldum eða notendagjöldum en það virðist ekki hafa tekist.

Það er líka mjög undarlegt þegar maður lítur á það að fasteignaeigendur borga fasteignagjöld sem byggja á þessu mati að þeir skuli látnir borga matið sjálfir, ekki sá sem leggur skattinn á. Þeir eru látnir kyssa vöndinn sem flengir þá, á vissan hátt, þeir eru látnir hanna kerfi sem er grundvöllur fyrir skattlagningu á þá. Það finnst mér ekkert mjög sniðug leið.

Sem formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar mun ég kalla forstöðumenn stofnunarinnar fyrir nefndina og spyrja þá hvað fór úrskeiðis. Hvað var það sem gerðist sem veldur því að við stöndum nú í þeim sporum að það er ekki búið að klára landskrána eins og til stóð fyrir þá fjármuni sem í þetta voru ætlaðir? Menn geta ekki kvartað undan því að gjaldið hafi lækkað því það hefur hækkað stórlega með hækkun brunabótamats fasteigna undanfarin ár þannig að það er ekki einu sinni sú ástæða til. Það er með mjög þungum hug sem ég fellst á það að styðja þetta frumvarp og ég mun biðja menn um að skoða þann möguleika að þetta verði hreinlega einkavætt, þetta verði annaðhvort selt eða það sem eftir er af verkinu verði boðið út eða að rekstur skrárinnar verði boðinn út til frambúðar. Þetta er nákvæmlega eins og hvert annað starf sem er unnið í þjóðfélaginu hvort sem það er bankastarfsemi, sala á lyfjum eða annað slíkt, það þurfa ekkert endilega að vera opinberir starfsmenn sem sinna þessu verkefni. Og þegar kostnaðurinn fer svona mikið úr böndum þá er full ástæða til þess að menn skoði aðrar leiðir.