133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála nánast öllu því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan í sinni ágætu ræðu. En það er óneitanlega eftirtektarvert að hv. þingmaður, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar og einn af helstu talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, segir það hér alveg svart á hvítu að kostnaðurinn við þetta verkefni hafi farið úr böndum og hann notar orð eins og aðfinnsluvert. Ég fæ ekki betur séð en við í Samfylkingunni og hv. þingmaður séum fullkomlega sammála í þessu efni.

Það er alveg ljóst að þegar farið var af stað í þetta verk á sínum tíma höfðu menn ekki hugmynd um hvað þeir voru að leggja út í, þeir höfðu engar áætlanir og þeir mátu allt rangt sem hægt var að meta vitlaust strax í upphafi, bæði hversu mikill tími færi í þetta og hversu mikið það mundi kosta. Það er náttúrlega alveg sláandi eins og hv. þm. bendir á að brunabótamat sem er andlag þessa nýja skatts, eins og ég kýs að kalla þetta, hefur snarhækkað. En samt sem áður sér ríkið ekki ástæðu til að lækka hlutfallið sem er tekið til að standa undir þessum kostnaði. Það finnst mér vera ámælisvert. Menn eru því að fá til þessa verks miklu meira en þeir ætluðu fyrir t.d. tveimur árum.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal hvort hann sé ekki sammála því að það sé fullkomlega eðlilegt að óska eftir því að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluúttekt á þessum hluta ríkiskerfisins, til að skoða hvort það sé rétt sem ég og hann erum að segja að það var aðfinnsluvert hvernig menn lögðu upp í þetta verk. Ég spyr hann sömuleiðis: Er hann sáttur við það að hæstv. ráðherra hafi ekki farið í það að leita annarra leiða, eins og þingið lagði fyrir hann, fyrr en allt var komið í eindaga?