133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem hér hefur spunnist um það hvort það ætti að kalla til Ríkisendurskoðun til að skoða þetta þá er alveg nauðsynlegt, ekki síst út af orðum hæstv. ráðherra áðan að taka það skýrt fram, að ég tel ekki að það sé eitthvað misjafnt sem hafi átt sér stað í meðferð fjármuna af hálfu þeirra embættismanna sem þarna um véla. Það sem ég á við er að menn lögðu í hugsunarleysi út í þetta, þeir mátu umfang verksins mjög vitlaust og skýringarnar sem hæstv. ráðherra gaf í framsögu sinni á því hví menn gerðu það standast heldur ekki. Þeir mátu kostnaðinn að öllu leyti rangt og menn virtust bara hafa farið af stað án þess að gera sér nokkra grein fyrir umfangi.

Auðvitað er ég algerlega sammála þeim sem hér hafa talað í þá veru að þetta er verkefni sem hefði átt að bjóða út og þróa á einkamarkaði. Það er algerlega fráleitt að byggja svona upp, finnst mér, innan ríkisins og ég tel að það sé óheppilegt að öllu leyti.

Það kann að vera rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir að það væri ábyrgðarleysi af okkur núna að láta nótt sem nemur og hætta við verkefnið, ég er sammála því. Það er búið að kosta miklu til þess og því verður að ljúka. Ég rifja það hins vegar upp að fyrir tveimur árum nefndi hv. þingmaður nokkra möguleika í því efni vegna þess að honum sveið í augum sá miklu kostnaður eins og okkur sem ræddum þetta. En ég vil spyrja hv. þingmann: Með tilliti til þess að nefndin er farin af stað kemur þá ekki til greina að þingið einfaldlega fresti afgreiðslu þessa máls og geri samþykkt um það að starfi nefndarinnar skuli lokið fyrir tiltekinn tíma og við þau verklok taki menn ákvörðun um hvort eigi að halda þessu gjaldi áfram eða ekki?