133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:11]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur til að afgreiða fjárlög fyrir áramót eins og iðulega og venja er til og þetta er hluti af því. Hins vegar eins og ég gat um áðan í ræðu minni þá hyggst ég kalla fyrir forstjóra stofnunarinnar og fá betri mynd af þessu dæmi. Það má vel vera að út úr því komi að ekki þurfi að framlengja þetta nema í eitt ár. Fyrir tveim árum þegar þetta var síðast framlengt nefndi ég ýmsar leiðir til að ná inn fé. Notendagjöld nefndi ég áðan. Það er hugsanlegt að svona kerfi yrði selt eða gefið til þróunarríkis vegna þess að þetta er undirstaða markaðskerfis. Ég hef nefnt það við stofnunina sjálfa og það gæti þá verið verðlagt í þeirri þróunaraðstoð sem slíkt. Það eru sem sagt mjög margir möguleikar til að nýta þetta kerfi. Þetta er óskaplega flott og gott kerfi. Þarna er búið að leysa mörg vandamál eins og t.d. með staðsetningu íbúðar í húsi, skiptingu á landi, sameign og alls konar hluti sem búið er að leysa sem þurfa mikla yfirlegu við þannig að kerfið er gott og í starfi hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem fær þetta mál til vinnslu, mun ég skoða ýmsar leiðir til að létta þessum álögum af fasteignaeigendum en það gerist ekki á næsta ári.