133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:21]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær spurningar sem til mín er varpað eru einmitt spurningar sem ég mundi vilja fá svar við hjá forstöðumönnum stofnunarinnar þannig að ég tel að það blasi við að þeir muni verða kallaðir á fund efnahags- og viðskiptanefndar til að gefa þessar upplýsingar og ég ætla ekki að reyna að svara spurningunum.

Hins vegar er oft reytingurinn sem eftir er, 7% sem eftir eru, þar sem vandamálin liggja. Þær upplýsingar las ég út úr ræðu forstöðumanns stofnunarinnar að einmitt þessi 7% af þeim gögnum sem væru einkum til vandræða væru gögn sem þyrftu mikillar yfirlegu við til þess að greiða úr. Við höfum fylgst með því t.d. í þjóðlendumálunum að það er töluverð vinna og töluverð verkefni að finna hvar landamörk liggja og ég geri ráð fyrir að það eigi m.a. við í þessu tilviki.

Varðandi það hve mikið eigi að renna til þess að byggja upp landskrána og hve mikið til reksturs eru það spurningar sem ég hef ekki svör við en vil gjarnan fá að vita. Ég dreg þá ályktun að þar sem Landskrá fasteigna er starfandi, lítur mjög vel út og virðist fúnkera í öllum þeim verkefnum sem stofnunin er að vinna sé ekki mikið eftir af stofnkostnaði. Hins vegar er það forstöðumanna stofnunarinnar að svara því.

Ég hef alltaf gengið út frá því að þetta gjald væri tímabundið. Hins vegar hef ég hvorki þekkingu né kannsski skoðun á því hvernig rekstur Landskrárinnar eigi að vera til frambúðar. Þess vegna er sennilega verið að setja á stofn nefnd til að skoða það. Ég mundi telja að þar sem þetta var tímabundið gjald, lagt upp með það, og þar sem við óttuðumst á þeim tíma að þetta gjald hyrfi ekki (Forseti hringir.) mundi ég standa fast á því að þetta væri tímabundið gjald.