133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:44]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki með niðurbrotnar tölur yfir rekstur þessarar stofnunar sem hv. þingmaður er að biðja um en sjálfsagt að þeim verði komið á framfæri við nefndina og hún fari ítarlega yfir það hvernig þessu er háttað, bæði með stofnkostnað og rekstur, í sinni yfirferð. Síst hefði ég á móti því.

Eins og hv. þingmaður má væntanlega sjá af frumvarpinu og þeirri nefnd sem þegar hefur verið skipuð og þeirri umræðu sem farið hefur fram, bæði af minni hálfu og annarra, þá geri ég ráð fyrir að búið verði að finna aðra lausn á fjármálum umrædds verkefnis þegar því tímabili er lokið sem um er að ræða, þessum tveimur árum. Ef störf nefndarinnar ganga vel fram og tími vinnst til annarra hluta vegna, að koma að nýrri skipan þessara mála, væri það mér alls ekkert á móti skapi. En til að vera raunsær í því hvernig svona mál ganga fram þegar verið er að finna nýja aðila til að fjármagna tiltekin verkefni taldi ég rétt að hafa þetta tveggja ára tímabil sem um er að ræða í frumvarpinu.

En það er nefndarinnar að fara yfir þetta og meta málið. Henni verða að sjálfsögðu veittar allar þær upplýsingar sem hún mun biðja um og er best að hún fari sem ítarlegast yfir málið, því ekki vil ég að neitt sé samþykkt hér á fölskum forsendum.