133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram fróðlegar umræður um þetta mál og er fullt tilefni til, því að svo virðist sem slík verkefni hlaði ævinlega utan á sig og fari verulega fram úr því sem gert var ráð fyrir í upphafi, bæði taka þau mun lengri tíma og í þau fara meiri fjármunir, kerfisverkið þenst út og kallar þannig á aukinn kostnað o.s.frv. Sumt af því kann að vera eðlilegt því þegar verið er að hanna eftirlitskerfi eða skráningarkerfi kann verkið að vera víðtækara en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi.

Þó segir í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Tilgangur laganna var að samræma verklag skráningaraðila við skráningu fasteigna í samhæfðri tölvuvinnslu.“ — Síðar segir: „Þar sem hvert upplýsingaatriði er aðeins fært einu sinni í landskrána sparast sú margskráning sem áður fór fram hjá ýmsum skráarhöldurum.“

Allt kann þetta að vera rétt, ekki ætla ég að mótmæla því fyrir fram, en það er ljóst að þessi skráning á fasteignum, sú skrá sem hér er verið að setja upp varðandi Landskrá fasteigna, gagnast auðvitað ekki bara fasteignaeigendum heldur einnig viðskiptaaðilum, lánastofnunum o.s.frv. Það er þess vegna spurning hvar á að taka þann kostnað sem hlýst af skránni í framtíðinni. Eins og þetta er lagt upp í greinargerð með frumvarpinu er beinlínis sagt að þegar þessi skráning verði komin á sparist margskráning hjá ýmsum skráarhöldurum. Svo kann því að fara að sá kostnaður sem við leggjum í núna í þessu máli, sem er vissulega verulegur og langt umfram það sem menn gerðu sér grein fyrir, komi síðar til baka. En það kann líka að vera að verkið hafi þanist út án þess að menn hafi gert sér grein fyrir því og ýmsir þættir jafnvel verið teknir inn í það sem áður var ekki kortlagt að þyrftu þar að vera. Ég skal ekkert um það segja.

Það má minna á sambærileg mál sem hafa haft mikinn kostnað í för með sér. Ég minni á hönnun tölvukerfis fyrir Tryggingastofnun ríkisins, sem er margbúið að auka fé til, aftur og aftur, endurtekið á fjárlögum og fjáraukalögum, án þess að menn hafi náð að kortleggja hvaða kostnaður hafi átt að koma þar til og hvort hann teljist eðlilegur. Ég veit ekki til þess að gerð hafi verið sérstök úttekt á þeim kostnaði, það kann þó að vera. Ég hef ekki séð hana, það getur verið að viðkomandi ráðuneyti hafi látið skoða það.

Hv. þm. Ásta Möller vék áðan að rafrænni sjúkraskrá og hönnun hennar hefur tekið langan tíma. Þar hefur vissulega verið um talsverðan kostnað að ræða, þó að hann sé kannski ekki sambærilegur við það sem hér er verið að ræða. Við erum að ræða um fjármuni sem stefna í að nálgast jafnvel 3 milljarða króna í þetta verkefni, sem átti upphaflega að standa í fjögur ár og átti að vera lagt upp þannig að því lyki. Síðan var því framlengt um tvö ár og nú á aftur að framlengja því um tvö ár. Á sama tíma hefur verð fasteigna hækkað og þar af leiðandi brunabótamat og tekjurnar hafa aukist. Það streyma því miklir fjármunir inn í þetta verkefni sem gjarnan mætti gera grein fyrir.

Það er rétt að upplýsa það hér, hæstv. forseti, af því að ég gat um það í andsvari við hæstv. ráðherra í dag að ástæða væri til að láta Ríkisendurskoðun kafa ofan í þetta mál, að þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur skrifað Ríkisendurskoðun og beðið um að þetta mál verði skoðað, svo að þær upplýsingar liggi hér fyrir. Ég veit ekki betur en það bréf hafi verið póstlagt en ég bað framkvæmdastjóra flokksins um að ítreka það með tölvuskeyti þannig að mönnum væri ljóst að búið væri að biðja um að málið yrði skoðað.

Ég tel nauðsynlegt að fara ofan í þetta mál eins og það er vaxið og að kostnaður og verkþættir verði kortlagðir. Það kann að vera að sú úttekt leiði í ljós að hér hafi verið hannað slíkt verkfæri til að fylgjast með og vinna að Landskrá fasteigna að það sé verðmætt í sjálfu sér og að sá mikli stofnkostnaður sem ráðist hefur verið í skili sér síðar með hagkvæmni í kerfinu. Að því var stefnt í upphafi þegar lagt var af stað í þetta verk árið 2000, það má beinlínis lesa það út úr því sem ég vitnaði til í upphafi máls míns þar sem bent var á að tilgangur laganna væri að samræma verklag skráningaraðila við skráningu fasteigna í samhæfðri tölvuvinnslu og þar sem hvert upplýsingaatriði væri aðeins slegið inn einu sinni sparaðist þar af leiðandi sú margskráning sem hefði verið framkvæmd áður hjá ýmsum aðilum. Þetta kann að vera rétt, ég ætla ekki að hafna því fyrir fram. En það verður auðvitað fróðlegt hvort Ríkisendurskoðun metur það svo, ef hún gerir stjórnsýsluúttekt á þessu, að þessir fjármunir skili sér síðar eða að hér sé verið að stofna til kostnaðar sem ekki sé líklegt að mati stofnunarinnar að skili sér á komandi árum, nema kannski með því lagi, eins og menn í ríkisstjórnarflokkunum hafa reyndar orðað í umræðunni hér í dag, að verkið verði einkavætt eða boðið út og selt og þar af leiðandi gagnagrunnurinn líka og haldið utan um þetta þannig og ríkið fái þá þessa fjármuni til baka. Ekki skal ég fullyrða neitt um það.

Ég held að það yrði ákaflega fróðlegt ef hægt væri að fá þetta verk unnið fljótt og vel. Það kann að vera að Ríkisendurskoðun geti ekki tekið verkið og skoðað það áður en við lokum fjárlagagerðinni í desember en það er nauðsynlegt að fram fari nokkuð snögg úttekt á því hvað er hér verið að aðhafast, því að við erum ekki að tala um neina smáaura í þessu sambandi, hæstv. forseti.

Það var upplýst hér að 7% væru eftir af þessu verki, 93% væru þegar unnin, og að við ætluðum að verja 650 milljónum á næstu tveimur árum í þau 7% sem eftir eru af verkinu, ef þessar upplýsingar, sem komu fram í máli hv. þm. Ástu Möller, eru réttar, sem ég dreg ekkert í efa.

Eins og ég benti á í ræðu minni höfum við verið að leggja fjármuni ríkisins í vinnslu á ýmsum kerfum. Ég nefndi tölvukerfi Tryggingastofnunar og áður hefur verið nefnd hér landskrá um sjúklinga og nú ræðum við um Landskrá fasteigna. Ég held að óhætt sé að segja að sammerkt með þessum verkefnum er að þau hafa öll tekið til sín meiri fjármuni en menn sáu fyrir í upphafi. Þó hygg ég að verkefnið sem við ræðum núna keyri kannski mest fram úr af þeim öllum, þó að ég hafi ekki þann samanburð akkúrat í pontunni í dag er ég nokkuð viss um að svo sé.

Það hefur iðulega þurft að bæta í þegar verið er að vinna slík tölvukerfi og upplýsingakerfi, langt umfram þann kostnað sem lagt var af stað með í upphafi. Það er alveg hægt að segja það, hæstv. forseti, að það er eins og svona skráning, stofnanir sem taka að sér kerfisskráningu, fari að lifa sjálfstæðu lífi. Þær þróast og stækka og bæta við sig verkefnum og sífellt virðist vera hægt að auka við verkefnin og skráninguna. Þrátt fyrir að mönnum hafi í upphafi tekist að búa til skráningarkerfi sem ættu að vera til einföldunar og með betri aðgang fyrir almenning og þá aðila sem þau nota, fer það oft svo að þau vaxa stöðugt og stjórnlaust og við sjáum engan veginn fyrir endann á þessu. Um þetta höfum við mörg dæmi, hæstv. forseti. Þar sem við erum hér með dæmi sem bæði hefur keyrt langt fram úr í tíma, miðað við þá verkáætlun sem upphaflega var lagt upp með, og auk þess margfalt í kostnaði, held ég að full ástæða sé til að það verði skoðað sérstaklega af Ríkisendurskoðun og við í Frjálslynda flokknum höfum óskað eftir slíkri skoðun. Það væri mjög þarft ef það gæti orðið, ég tala nú ekki um ef þær upplýsingar gætu að einhverju leyti legið fyrir áður en menn ljúka vegferð þessa máls og samþykkja viðbótarálögur til tveggja ára sem tengjast þróun fasteignaverðs, en fasteignaverð hefur eins og allir vita vaxið og hækkað hér á landi á undanförnum árum og þar af leiðandi hefur sá tekjustofn vaxið meira en menn höfðu gert ráð fyrir.

Það er full ástæða til, hæstv. forseti, að þetta mál verði skoðað gaumgæfilega. Ég vonast til að Ríkisendurskoðun geti skoðað málið sem allra fyrst þannig að eitthvað af þeim upplýsingum liggi fyrir áður en þessu máli verður lokað hér og það verður að lögum en það tengist auðvitað fjárlagagerðinni sem væntanlega lýkur samkvæmt starfsramma Alþingis í fyrri hluta desember.