133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

357. mál
[16:06]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta felst í tvennu, annars vegar í því að skýrar er kveðið á um hvað sé brot og þar af leiðandi á að vera auðveldara að fylgja eftir eftirliti og þar með gæti komið til þess að það verði þá frekari sektir og eins vegna þess að upphæðir sektanna eru ákvarðaðar á annan hátt, þ.e. óháð því sem ætlað er að kæmi út úr brotunum til góða fyrir þann sem er brotlegur. En ég geri ekki ráð fyrir að þessi áhrif verði varanleg þar sem ég geri ráð fyrir því að þetta muni hafa fyrirbyggjandi áhrif og muni síðan leiða til þess að brotum fækki vegna fyrirbyggjandi áhrifa sem hljótast af því að skýrara er hvað um sé að ræða og eins hver sektarfjárhæðin er. Þetta er nú ekki neitt sem ég tel ástæðu til að gera sérstaklega grein fyrir í fjármálum ríkisins, alla vega til lengri tíma litið.