133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:13]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Batnandi manni er best að lifa og snöggtum batna nú málin sem hæstv. ráðherra flytur hér í dag. (Gripið fram í: Það kom að því.) Þau fyrstu sem hann flutti hér voru giska slæm og sérstaklega það sem að fjallaði um Landskrá fasteigna. Þetta frumvarp er aftur á móti miklu rökrænna og horfir til bóta. Auðvitað mun ég og við í Samfylkingunni styðja þetta mál og ég leyfi mér að tala líka fyrir munn félaga minna í VG og lýsa því yfir að þeir munu gera að líka, en það ræð ég af líkum því að þeir hafa gert það áður.

Frú forseti. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst skorta heildstæða stefnu hjá ríkisstjórninni varðandi það að stuðla að og ýta undir notkun ökutækja knúnum endurnýjanlegu eldsneyti. Hæstv. ráðherra sagði réttilega áðan að ein af ástæðunum fyrir því að ríkisstjórnin leggur fram þetta frumvarp og hefur gert um nokkurra ára skeið sé sú að dreifikerfi þessara nýju endurnýjanlegu orkugjafa sem við erum að fikra okkur í átt til að nota á Íslandi sé svo gisið. Það var vel mælt hjá hæstv. ráðherra og það er alveg hárrétt. Þess vegna telur hæstv. ráðherra nauðsynlegt að stuðla að því að þessir orkugjafar og þessi ökutæki verði tekin upp með því að lækka með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir skatta af ökutækjum og eldsneyti.

Ég vil hins vegar segja, frú forseti, að ég held að þetta gangi allt of skammt. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að stíga miklu stærri skref til að þau skipti nokkru máli. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að taka á sig rögg og gera heildstæða áætlun um margvíslegar aðgerðir til að auka notkun farartækja sem nýta endurnýjanlega og innlenda orkugjafa. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að setja sér tímasett markmið um það hversu stór hluti innlendra ökutækja verði knúinn með þeim hætti í tiltölulega nálægri framtíð. Ég hef sjálfur lagt fram þingsályktunartillögu á umliðnum árum þar sem skorað er á ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum sem miða að því að fjórðungur ökutækja verði knúinn slíkum orkugjöfum árið 2020. Ég tel að við þurfum miklu umfangsmeiri lagabreytingar en þær sem hæstv. ráðherra leggur hér fram um heimildir sjálfum sér til handa. Ég tel að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir sé partur af vandamáli heimsins alls og okkur beri siðferðileg skylda og við höfum líka alþjóðlegar samningsskuldbindingar til að stíga miklu stærri skref en þetta. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til að samþykkja lög sem mundu veita hæstv. fjármálaráðherra heimild til að fella niður svo lengi sem þurfa þætti öll opinber gjöld eins og virðisaukaskatt, vörugjald og þungaskatt af samgöngutækjum sem nýta endurnýjanlega orkugjafa, sömuleiðis af öllum búnaði sem er nýttur til að framleiða nýja endurnýjanlega orkugjafa hér á landi og jafnframt af öllu því endurnýjanlega eldsneyti sem hugsanlega væri hægt að nota til að knýja samgöngutæki. Ég tel að þetta séu alvöruskref. Þau eru miklu stærri en þau sem hérna eru stigin þó að sjálfsagt sé að vanþakka þau ekki. En ef við ætlum okkur að stíga raunveruleg skref til að hvetja með skattaívilnunum og beita efnahagslegum hvötum til þess að fá Íslendinga til að taka upp endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum þá verðum við að gera það með þessum hætti. Þá verðum við að gera það með þeim hætti sem um munar. Skrefið sem hæstv. ráðherra stígur hér er gott og góðra gjalda vert. En það er allt of lítið. Við eigum að taka miklu dýpra og fastar á árum í þessu máli.