133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Herra trúr. Það vantar ekki að hæstv. ríkisstjórn hafi skrifað býsnin öll af skýrslum um þessi mál. Það vantar ekki heldur að hæstv. ríkisstjórn hafi margsinnis lýst góðum vilja. En það eru dáðirnar sem vantar. Má ég rifja það upp fyrir hæstv. fjármálaráðherra að eini repúblikaninn sem vann umtalsverðan sigur í ríkisstjórakosningum í Bandaríkjunum nú í kosningunum fyrir skömmu var einmitt tortímandinn, það var félagi Arnold Schwarzenegger. Hann vann m.a. sinn sigur vegna þess að hann hefur verið að berjast fyrir því að skattar á ökutækjum sem ganga fyrir endurnýjanlegu eldsneyti og skattar af endurnýjanlegu eldsneyti verði lækkaðir. Það eru slíkir menn, eins og tortímandinn sem hæstv. fjármálaráðherra á að taka sér sem fordæmi.

Það eru heilar þjóðir sem hafa m.a. byggt upp samgöngur sínar á endurnýjanlegu eldsneyti. Má ég minna á Brasilíu sem er undir forustu samfylkingarmannsins og verkalýðsforingjans Lula þar sem menn aka að 90% á vélum sem eru knúnar af etanóli. Má ég benda á það að í mörgum ríkjum Bandaríkjanna sem er mekka kapítalismans eru menn einmitt að fara þá leið að beita efnahagslegum hvötum til að fá menn til að taka upp þessa tækni í ríkari mæli með því að lækka skatta svo um munar. Það er þetta sem skiptir auðvitað mestu máli. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hefur gert ágæta hluti varðandi vetnið. Það er hins vegar eins og við höfum séð af greinum síðustu vikur í blöðum að það er mjög langt í að það verði almenn tækni sem hægt er að taka upp.

Það ber að hrósa fyrirtækjum eins og Toyota sem hafa sett sér háleit markmið, „zero emission“ svo ég sletti ensku, þ.e. engin kolefnalosun. Það eru svona markmið sem menn eiga að setja sér og við eigum að taka undir með svona fyrirtækjum með því að lækka skatta á framleiðslu þeirra.