133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað ágætt hjá stóriðjusinnum Sjálfstæðisflokksins að flytja hér einhvern dýrðaróð um álframleiðslu á Íslandi þegar við erum að reyna að velta fyrir okkur leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Ég ætla ekki fyrir mitt leyti að snúa þessari umræðu upp í það.

Hins vegar finnst mér að jafnvel þó að hv. þingmaður hefði að öllu leyti rétt fyrir sér, dragi það ekki úr þeim siðferðilegu skyldum sem við höfum til að leita allra leiða til að draga úr losun slíkra lofttegunda hér á landi. Það liggur alveg klárt fyrir að samkvæmt mati íslenskra stjórnvalda mun losun frá samgöngum á milli áranna 1990 og 2020 aukast um tæp 43%. Það þýðir að við verðum á einhvern hátt að finna leiðir til að stemma stigu við því. Hvernig getum við það? Jú, með því að ýta undir að almenningur taki upp endurnýjanlega orkugjafa og þar með reyna að örva almenning til þess að kaupa bifreiðar og samgöngutæki sem ganga fyrir slíku. En vegna þess hversu framarlega á þróunarferli slíkra tækja við erum stödd núna eru þau dýr í framleiðslu. Við þurfum þess vegna með einhverju móti að draga úr kostnaði þeirra gagnvart almenningi og örva þannig Íslendinga til að kaupa slík ökutæki fremur en önnur. Ég tel að það sé siðferðileg skylda okkar.

Hvernig getum við gert það? Jú, önnur leiðin — við höfum tvær leiðir til þess — er beinlínis að niðurgreiða eða þá, eins og ég hef verið að tala hér fyrir í dag, að fella niður alla skatta af öllum ökutækjum sem nota endurnýjanlega orkugjafa að öllu leyti eða hluta til og sömuleiðis af öllum búnaði til þess að framleiða slíkt eldsneyti hér á landi. Það er hægt að gera það.