133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum tvenns konar skyldur. Annars vegar gagnvart heiminum og mannkyni öllu. Okkur ber siðferðileg skylda til að taka þátt í viðleitni mannsins til að draga úr þeirri vá sem að okkur steðjar fyrir tilstilli losunar gróðurhúsalofttegunda. Hins vegar höfum við líka mjög ríkar skyldur gagnvart okkar eigin landi og gagnvart framtíðinni og afkomendum okkar. Við verðum að finna þarna ákveðið jafnvægi á milli, með öðrum orðum, það er ekki sjálfgefið að við nýtum þá orku sem við höfum óbeislaða á Íslandi til að framleiða varning sem gæti hugsanlega leitt til þess að heildarlosun á þessum lofttegundum minnkar. Þarna þurfum við að finna ákveðið einstigi þar sem við tökum tillit til beggja sjónarmiðanna, af sjálfu leiðir, tel ég. Hv. þingmaður má mín vegna vera þeirrar skoðunar að það sé gríðarlega þarft verk að framleiða mikið af áli á Íslandi og hann veit að það er mjög umdeilanlegt eða a.m.k. umdeilt sjónarmið.

Ég fagna því hins vegar að hv. þm. Pétur H. Blöndal tekur undir með mér að það sé siðferðileg skylda okkar Íslendinga að reyna að finna leiðir til að draga úr losun þessara skaðlegu lofttegunda. Ein af þeim leiðum, sem ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn talaði fyrir, er hin efnahagslega leið, þ.e. að beita hvötum.

Ég vil síðan aðeins segja til varnar hv. þm. Hjálmari Árnasyni, sem af einhverjum undarlegum ástæðum hefur ekki kosið að taka þátt í umræðunni og svara þeirri gagnrýni sem komið hefur fram af hálfu hins stjórnarflokksins um afstöðu hans til vetnis, að ég tel þó þrátt fyrir allt að það muni um okkar hlut, t.d. í vetninu. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði áðan, að það sé mjög langt þangað til það leysi einhvern vanda, en ég held hins vegar að Ísland geti lagt sitt lóð á vogarskálar með því að taka þátt í því með alþjóðlegum stórfyrirtækjum, með Evrópusambandinu, að þróa dreifikerfið eins og við höfum verið að reyna á Íslandi.