133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:29]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við ættum að hugsa aðeins metnaðarfyllra en mér fannst hv. þingmaður gera. Ég er sammála hv. þingmanni og hef löngum sagt að framlag okkar með útflutningi á áli er mikilvægt framlag til umhverfismála heimsins vegna þess að við erum að framleiða þetta ál með vistvænni orku en ef við ekki gerðum það yrði þetta ál líklega framleitt einhvers staðar annars staðar vegna þess að heimsmarkaðurinn kallar á ál, hugsanlega í Mósambík, Ástralíu eða Kanada, þar sem menn m.a. eru að framleiða rafmagnið með kolum og olíu.

Hins vegar eigum við ekki að stilla þessu upp að annaðhvort flytjum við út ál eða vetni. Við getum nefnilega gert hvort tveggja. Og þó að það væri ekki annað en bara staldra við það að verða sjálfbær, að framleiða okkar eigin orkugjafa eða orkubera, mér er alveg sama hvað hv. þingmaður kallar það, þó að það væri ekki annað en að verða sjálfbær á þann hátt og fá þennan hreina orkugjafa á efnarafölum í staðinn fyrir þann mengandi orkugjafa sem jarðefnaeldsneyti sannarlega er. Til viðbótar gætum við hugsanlega flutt úr landi, og ég trúi ekki öðru en að jafnviðskiptalega sinnaður maður og hv. þm. Pétur Blöndal er sjái ekki bisnesstækifærin í því að flytja út vetni, jafnvel við hliðina á álútflutningi.

Ég árétta að vetnisbílarnir einir og sér, fyrir utan auðvitað dekkin, hafa engan útblástur sem er skaðlegur. Það er einungis hreint vatn sem hv. þingmaður gæti drukkið og orðið mjög hollt af, gagnstætt þeim mikla útblæstri sem kemur af jarðefnaeldsneytinu.