133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að það væri draumur okkar Íslendinga að verða fyrsta vetnissamfélagið. Draumur. Þetta er sem sagt draumur. Við erum að tala um draum eða trúarbrögð. Vetni nefnilega er ekkert með mikla nýtni. Vetnið eins og það er notað er ekkert annað en rafgeymir eða orkugeymir. Það er sett orka inn og út kemur orka. Og þó að það sé hægt að drekka afraksturinn af því sem hreint vatn þá þarf nýtnin að vera samkeppnisfær. Nýtni þessa orkugeymis þarf að vera samkeppnisfær þannig að sú orka sem kemur út sé ekki of lítið hlutfall af þeirri orku sem sett er inn. Þetta er það sem kallað er nýtni á rafgeymi eða orkugeymi og hún er mjög léleg hjá vetni enn sem komið er. Það má vel vera — ég ætla ekkert að útiloka það — að í framtíðinni verði fundin upp leið til að gera þennan rafgeymi eða þennan orkugeymi hagkvæmari og nýtnari. Ég bendi á varðandi nýtni olíu eða brennslu á olíu og bensíni að það er ekki nema 25–30% nýtni á venjulegri bensínvél. Það er mjög léleg nýtni. Það er því til mjög mikils að vinna. En ég er ekkert viss um að þessi orkugeymir eða þessi rafgeymir verði ofan á eftir 30, 40 ár. Það getur orðið eitthvað allt annað. En hækkandi orkuverð gerir það að verkum — en af því að við Íslendingar erum sjálfbærir þá snertir það okkur ekki nema að því leyti að verð á áli hækkar og þá hækka tekjur okkar af því — þ.e. það hvetur mannkynið og allar þjóðir heims, þar á meðal okkur, til að leita enn ákafar að lausnum sem taka við af olíunni ef hún einhvern tíma skyldi þverra.