133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[17:36]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að allir bílaframleiðendur veraldar séu á rangri leið. Það kann vel að vera að þeir fjölmörgu vísindamenn, doktorar, masterar og verkfræðingar sem vinna á þeirra vegum og hafa komist að þeirri niðurstöðu að hyggilegast sé að nýta efnarafala og vetni, séu allir á rangri braut og hafi rangt fyrir sér.

Ég hef hins vegar trú á því að hvort sem okkur líkar betur eða verr þá sé þetta sú leið sem þeir ætla sér að fara. Hv. þingmaður verður bara að sætta sig við það. Bílaframleiðendurnir eru á þessari leið og við hljótum að taka mið af því alveg eins og við tökum mið af því að bílar menga mikið núna en við kaupum þessa bíla og við notum þá af því að það eru bílaframleiðendur sem framleiða bílana en ekki við. Við notum þá hins vegar og þar liggja okkar tækifæri. En ég hef ekki trú á því að þeir hafi allir rangt fyrir sér.