133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

374. mál
[17:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða mál sem tengist kaupum ríkisins á eignarhlut í Landsvirkjun og greiðslu fyrir þá eignarhluti sem Akureyri og Reykjavíkurborg ákváðu að selja Landsvirkjun. Þetta mál lýtur náttúrlega fyrst og fremst að þeim viðskiptum en er þó víðtækara en það, hæstv. forseti.

Eitt meginmarkmið lífeyrissjóða er að tryggja félagsmönnum sínum þau lífeyrisréttindi sem þeir eiga að geta treyst á að fá samkvæmt lögum. Í almenna lífeyrissjóðakerfinu er gengist undir það að lífeyrisþegar eigi að fá um 56% miðað við þá inngreiðslu sem þeir hafi greitt, þ.e. miðað við þær tekjur sem þeir höfðu meðan þeir greiddu í lífeyrissjóðinn. Það á að vera tryggt að þeir fái um 56% af viðmiðunargrunni eftir 40–45 ár, trygging þeirra sé sú.

Í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna er þetta hins vegar þannig að menn eiga rétt á og möguleika á að fá 70% þeirra launa sem þeir höfðu þegar þeir störfuðu. Þar að auki er svo í lífeyriskerfi opinberra starfsmanna hin svokallaða 90 ára regla starfsaldurs og aldurs. Þetta eru kannski þær meginreglur sem gilda um réttindi félaga í lífeyrissjóðum, það sem þeir eiga að geta verið nokkuð vissir um að fá miðað við núgildandi löggjöf og reglur lífeyrissjóða.

Lífeyrissjóðirnir hafa auðvitað þurft að hafa fyrir því að reyna að tryggja sem best þá fjármuni sem inn í sjóðina koma og á undanförnum árum hefur sem betur fer tekist allvel að ávaxta féð sem inn kemur í sjóðina og leitast þar af leiðandi við að tryggja lífeyrisréttindi þeirra félaga sem eru félagar í viðkomandi lífeyrissjóði til framtíðar.

Það skiptir auðvitað verulegu máli fyrir lífeyrissjóðina í hverju þeir fjárfesta og einnig að lífeyrissjóðirnir séu mjög opnir fyrir því eins og kaupin gerast nú á eyrinni á fjármálamarkaðnum að færa fé sitt til og fara þangað sem þeir ná bestri ávöxtun hverju sinni. Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort það sem hér er verið að heimila geti orðið til þess, þ.e. tilfærsla á fjármunum þess lífeyrissjóðs sem hér um ræðir, að möguleikar lífeyrissjóðsins til að ávaxta fé sitt verði ekki jafnopnir og áður með því fyrirkomulagi sem er opnað á varðandi eignaraðild að fjárskuldbindingum, þ.e. að taka við skuldabréfi og geyma það og eiga. Þetta er svona vangavelta og við getum aldrei fullyrt um hvernig framtíðin lítur út að þessu leyti, en á undanförnum árum hafa lífeyrissjóðirnir leitast mjög við að færa fjármuni sína til í ýmsum fjárfestingum með tilliti til þess að tryggja ávöxtun og þar með lífeyrisréttindi til framtíðar. Meginmarkmið lífeyrissjóðanna er auðvitað að tryggja félagsmönnum sínum þann rétt að þeir geti fengið út viðunandi lífeyri þegar þeir þurfa á honum að halda, að tryggja afkomu fólks þegar það kemst á efri ár, veikist eða verður öryrkjar o.s.frv.

Hæstv. forseti. Það er rétt að víkja aðeins að því að ASÍ, ef ég man rétt, gerði á síðastliðnu vori samkomulag við ríkisvaldið um að ríkisvaldið kæmi í auknum mæli að þeirri miklu örorkubyrði sem er í sumum lífeyrissjóðunum. Sá lífeyrissjóður sem sá sem hér stendur á mestan sinn rétt í, Lífeyrissjóður sjómanna, hefur nú sameinast öðrum lífeyrissjóði og verið gefið nafnið Lífeyrissjóðurinn Gildi. Örorkan í þeim lífeyrissjóði og örorkuþátturinn af útgreiddum lífeyri komst allt að því að vera 45% af útgreiddum lífeyri, sem er náttúrlega orðin mikil byrði fyrir viðkomandi lífeyrissjóð miðað við það sem gert var ráð fyrir þegar lífeyriskerfið var sett á fót en þá held ég að lagt hafi verið upp með að almenna örorkan í lífeyrissjóðunum mundi sennilega liggja á bilinu 10–12%. Mig minnir að þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir hafi verið gengið út frá því að örorkuþátturinn mundi að öllu jöfnu lenda á lífeyrissjóðunum.

Þess vegna er það ekki undarlegt þegar horft er til þess hversu lífeyrissjóðapakkinn, að því er varðar örorkulífeyri, hefur hækkað verulega umfram það sem menn gerðu ráð fyrir, að verkalýðshreyfingin skuli hafa reist þá kröfu — og ef ég man rétt að ríkið samþykkti — að leggja ákveðna fjármuni inn í lífeyrissjóðakerfið til þess að taka að hluta til niður örorkuþáttinn og greiða inn í lífeyrissjóðakerfið í þeim tilgangi að örorkubyrði legðist ekki með svo mismiklum þunga á stéttir í landinu eftir því í hvaða lífeyrissjóði er greitt. Ef ég nota annan samanburð sem ég man eftir úr umræðu fyrri ára þá minnir mig t.d. að mismunurinn á tveimur lífeyrissjóðum sem ég skoðaði fyrir nokkrum árum hafi verið sá að Lífeyrissjóður sjómanna hafi verið með um 45% örorkubyrði en lífeyrissjóður Búnaðarbanka Íslands, sem þá var, með 1,8%. Þetta er eitt dæmi um hvað örorkan getur lagst misjafnt á lífeyrissjóðina. Auðvitað fer þetta mikið eftir starfsstéttum og vinnuálagi þeirra þannig að þetta er ekki eins í öllum lífeyrissjóðunum og ekki alls staðar eins í lífeyriskerfinu.

Ég geri þetta að umræðuefni, hæstv. forseti, vegna þess að ég held að sú umræða sem hefur farið fram m.a. í haust um breytingu á réttindum örorkulífeyrisþega í lífeyrissjóðunum sýni þetta mál í hnotskurn, þ.e. þegar lífeyrissjóðirnir eru farnir að skoða örorkulífeyrisþegana með það að markmiði að ná að lækka lífeyrisgreiðslurnar út úr lífeyrissjóðunum fyrir ákveðna örorkulífeyrisþega. Það er kannski ekkert óeðlilegt að þetta sé skoðað af hálfu lífeyrissjóðanna en ég hef hins vegar gert athugasemdir við það hvernig framkvæmdin á því hefur verið og ég hef reynt að skýra það með einföldu dæmi.

Dæmið lítur svona út: Skipstjóri í fullu starfi slasaðist, hann datt niður stiga og varð algjör öryrki og var strax metinn sem slíkur, 75% öryrki. Hann hafði bullandi tekjur þegar hann hætti í starfinu og fékk þar af leiðandi framreikning miðað við þær tekjur og var á þeim tíma hæsti lífeyrisþegi í örorkulífeyri úr Lífeyrissjóði sjómanna. Ef hann hefði verið skoðaður aftur samkvæmt vinnureglu lífeyrissjóðanna hefði lífeyrir hans ekki verið lækkaður. Vegna hvers? Vegna þess að þrátt fyrir að hann væri hár í framreikningnum var hann enn þá verulega lægri en hann var í tekjum meðan hann var í starfinu og skoðunarregla lífeyrissjóðanna byggir á því að það beri að lækka fólk í örorkugreiðslum ef það hefur hærri tekjur eftir að það komst á örorkuna.

Hvaða fólk er það þá sem hugsanlega getur lent í hærri tekjum eftir að það kemst á örorkuna? Það er m.a. fólk sem hefur lent í því að veikjast smám saman, verða smátt og smátt frá vinnu. Það er líka fólk sem hefur haft mjög lágar tekjur, t.d. bændakonur á sauðfjárbúi, sem höfðu kannski einhvern viðmiðunargrunn í tekjum upp á 60–80 þús. kr. á mánuði og greiddu inn í Lífeyrissjóð bænda samkvæmt því. Svo kom að því að viðkomandi lenti í slysi og var metinn 25% öryrki og veiktist síðan og var þá metinn 75% öryrki. Þegar farið er að skoða slíkan einstakling í dag með vinnureglu lífeyrissjóðanna getur komið í ljós, og kom í ljós varðandi þann einstakling sem ég er að tala um að hann fékk 21 þús. kr. út úr Lífeyrissjóði bænda, fékk síðan eðlilegar örorkulífeyristryggingar frá Tryggingastofnun ríkisins, metinn sem 75% öryrki, og þegar lífeyrissjóðirnir fóru að bera tekjur hans sem lífeyrisþega saman við það sem hann hafði meðan hann var í starfi þá reyndist hann vera með hærri tekjur sem öryrki. Greiðslurnar út úr tryggingakerfinu eru sem sagt vel yfir 100 þús. kr. og síðan fær fólk 21 þús. kr. út úr lífeyrissjóði, og þó að það skerði örlítið bætur frá Tryggingastofnun, réttara sagt ekki örlítið heldur gildir þar 45% reglan, þá eru tekjur viðkomandi aðila samt hærri en þær voru þegar hann var starfandi. Þá segja menn: Viðkomandi örorkulífeyrisþegi hefur það betra, er með hærri tekjur. Þetta dæmi hef ég stundum tekið til þess að reyna að skýra út að vinnureglan getur verið ósanngjörn þó að hún standist lög og reglur lífeyrissjóðanna.

Ég vil, hæstv. forseti, ekki hafa mál mitt mikið lengra en vek athygli á því að það er skylda lífeyrissjóða að varðveita fjármuni sína til þess m.a. að greiða út lífeyri og varðveita rétt fólks í lífeyrissjóðum. En úr því að ég minntist hér á loforð ríkisstjórnarinnar eða samning við ASÍ um eingreiðslu vegna örorkuþáttarins þá væri ekki úr vegi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem hér er: Hvað líður þeim málum sem samið var um við ASÍ eða gert samkomulag um? Hefur verið samið um það við verkalýðshreyfinguna að ríkissjóður yfirtaki smátt og smátt meira af þeim örorkuþætti sem er í hinum almennu lífeyrissjóðum þannig að misvægið verði ekki eins ótrúlega mikið og það er þegar í dag, eða hvað hefur farið á milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar um það? Telur hæstv. fjármálaráðherra að það sem hér er verið að gera tryggi algjörlega stöðu viðkomandi varðandi það að fá þá ávöxtun af þessu fé sem ætlast er til, þ.e. hæstu ávöxtun á hverjum tíma? Það er það sem lífeyrissjóðirnir eiga að leitast við til þess að tryggja lífeyrinn, hvort sem þeim tekst það eða ekki.