133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

374. mál
[17:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni þessa andsvars vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort það megi skilja svar hans þannig að í því felist að ríkið muni bæta upp þann mismun meðalávöxtunar annarra skuldbindinga viðkomandi lífeyrissjóðs og hins vegar þeirrar ávöxtunar sem fylgir þessu bréfi, því að það er jú auðvitað það sem lífeyrissjóðirnir hafa leitast við á undanförnum árum með því að færa til eignasafn sitt í verðbréfum til þess að ná sem bestri ávöxtun. Ef þeir eiga nú að sitja fastir með ríkisskuldabréf, sem ber þá vexti eins og ákvæðið er um, þá tel ég að það sé engin sérstök trygging fyrir því fyrir viðkomandi lífeyrissjóð að það sé sú besta ávöxtun sem menn geti fengið út úr fjármunum sínum.

Ef ég man rétt held ég að sumir lífeyrissjóðir hafi verið að ná allt að 19% ávöxtun á fjárskuldbindingar sínar og þess vegna spyr ég að því hvort skilja eigi svar hæstv. fjármálaráðherra þannig að það verði tryggt að viðskiptin að þessu leyti nái að jafna þá meðaltalsávöxtun sem viðkomandi lífeyrissjóður nær af öðrum fjárskuldbindingum sínum.